143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir um textann í frumvarpinu og tengist lausnum á flutningi á milli lands og Eyja þá stendur ekki til neitt annað en að fara í útboð á ferjunni á komandi ári. Fjármagnið sem er sett þar inn er miðað við að farið verði í útboð. Hins vegar hefur verið í skoðun hvort hægt sé að bæta samgöngur við eyjarnar tímabundið með einhverjum hætti, m.a. til að fá siglingareynslu af ferju sem væri grynnri en Herjólfur. Þess vegna er þetta orðað með þeim hætti sem hv. þingmaður tók greinilega eftir og las upp. Það var vilji okkar að halda ákveðinni sveigju í því hvernig Eyjamenn vildu nálgast málið en það er engin breyting á því að farið verður í útboð á næsta ári.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður kemur inn á að þetta hefur tafist en engin áform eru um að breyta því. Uppi hafa verið eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður þekki mjög vel ákveðnar umræður um að farsælt væri að fá siglingareynslu af ferju sem risti grynnra en Herjólfur gerir. Þannig að við höfum verið að skoða ákveðna þætti er tengjast því.

Varðandi gerð göngubrúar yfir Markarfljót er það þannig, og ég get farið betur yfir það síðar eða afhent hv. þingmanni það skriflega, að þær áætlanir sem voru í gangi varðandi kostnað á því verki virðast ekki í samræmi við það hver kostnaðurinn er. Það er í raun og veru því miður þannig að menn hafa þurft að setja verkefnið á ís og skoða verður það aftur með hliðsjón af því að það er talið kostnaðarsamara en áætlanir gerðu upphaflega ráð fyrir.