143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:16]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs munu útgjöld velferðarráðuneytisins sem snúa að félags- og húsnæðismálum verða rúmir 119 milljarðar kr. Aukningin milli ára nemur tæpum 12 milljörðum kr. sem svarar um 10,8%. Mest munar þar um aukna fjármuni inn í almannatryggingakerfið og Íbúðalánasjóð og á þeim grunni er gert ráð fyrir því í fjárlögunum að ná jafnvægi í ríkisrekstrinum, skila hallalausum rekstri á næsta ári á sama tíma og við stöndum vörð um velferðina og heimilin í landinu.

Það er mikilvægt að hafa í huga að hlutur bótagreiðslna er tæp 92% af öllum útgjöldum til félags- og húsnæðismála og því augljóst að aukningin inn í bótakerfið upp á 11,2% vegur hér þungt. Lífeyrisþegar munu nú fá nauðsynlega leiðréttingu sinna mála þegar tekjuskerðingarhlutfall hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum lækkar úr 45% í 38,5%. Þar er verið að koma verulega til móts við þá hópa og leiðrétta skerðingar frá 2009. Í krónum talið aukast greiðslur til málaflokksins um 8,5 milljarða kr.

Með þeirri breytingu er verið að stíga stærsta skrefið að því marki að skila lífeyrisþegum þeim skerðingum sem þeir hafa mátt sæta frá árinu 2009. Fyrsta skrefið hefur þegar verið tekið í sumar þegar afnumdar voru skerðingar á grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega vegna lífeyristekna og með hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega úr 40 þús. kr. á mánuði í um 110 þús. kr. Samhliða því var líka tekin ákvörðun um að framlengja frítekjumarkið vegna atvinnutekna öryrkja um eitt ár meðan unnið er að nýju og breyttu almannatryggingakerfi. Að mínu mati kemur stefna stjórnvalda í félagslegum velferðarmálum því glöggt fram í fjárlagafrumvarpi ársins 2014. Áherslan er á fólk, fjölskyldur, heimili og börn og afkomu og velferð.

Eins og ég sagði áðan verða fjármunirnir í almannatryggingakerfið auknir um 11,2%. Aukið fé verður veitt til málefna barna og hækka framlögin um 16,9% samkvæmt frumvarpinu eða sem nemur 177 millj. kr. Fénu verður varið í úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, barnaverndarmál, úrræði fyrir fanga yngri en 18 ára og í forvarnir og meðferðarúrræði. Að hluta til eru það verkefni til að fylgja eftir lögfestingu Alþingis á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Ég vil líka nefna hækkun hámarksgreiðslna í fæðingarorlofi um 20 þús. kr. á mánuði þannig að með því og öðrum hækkunum á síðasta rúma ári sem er staðinn vörður um hafa hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækkað um 23% þegar Alþingi verður búið að samþykkja breytinguna, ef Alþingi hyggst gera það. Markmiðið með þessu er að fjölga þeim sem vilja nýta rétt sinn til fæðingarorlofs en því miður er enn töluverður fjöldi karla sem gerir það ekki. Ég vonast til að breytingin muni vinna að því að ná ætluðum tilgangi laganna um að tryggja barni samvistir við báða foreldra og samræma fjölskyldu- og atvinnulíf með því að jafna ábyrgð foreldra á uppeldi barna sinna og styðja þannig við jafnrétti kynjanna.

Eins og ég nefndi í upphafi er verulegum fjármunum varið til Íbúðalánasjóðs sem fær samkvæmt frumvarpinu 4,5 milljarða á næsta ári til að mæta rekstrartapi og til að annast umsýslu með húsnæði í eigu sjóðsins. Það er auðvitað ekki gott að sjóðurinn skuli vera svo fjarri því að vera sjálfbær en við verðum að styrkja innviði hans og því er þetta aukna framlag óhjákvæmilegt.

Þá lá líka alltaf fyrir að í fjárlagafrumvarpi næsta árs yrði reynt að skera niður kostnað eftir því sem væri mögulegt. Vandinn í slíkum aðgerðum er að forgangsraða sem best og hefur verið reynt að gera það eins og kostur er í þágu fólks, heimila og velferðar. Í hagræðingaraðgerðunum munar miklu um 299 millj. kr. samdrátt í rekstrarumfangi umboðsmanns skuldara. Það eru þó í sjálfu sér ekki slæm tíðindi því að verulega er farið að draga úr álagi hjá umboðsmanni eins og reiknað var með og því eðlilegt að stofnunin dragi saman seglin eftir því sem dregur úr þörf fyrir þjónustu hennar.

Útgjöld til vinnumála dragast líka saman um tæpar 1.340 millj. kr. Tekið skal fram að atvinnuleysisbætur hækka um 3% í samræmi við almennar verðlagsforsendur og er þannig staðinn vörður um atvinnuleysisbæturnar sjálfar en það fækkar hins vegar stöðugt fólki á atvinnuleysisskrá, störfum fjölgar og það dregur úr atvinnuleysi, sem er raunar með því minnsta sem þekkist á Vesturlöndum. Samkvæmt Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, eru aðeins fjögur lönd í hinum vestræna heimi með minna atvinnuleysi en Ísland. Samhliða því minnkar þörf fyrir vinnumarkaðsaðgerðir og því er lagt til að dregið sé saman í útgjöldum til þeirra enda er þeim alltaf ætlað að vera tímabundin úrræði.

Virðulegi forseti. Það er einkar ánægjulegt að horfa til þeirra þátta að í fjárlagafrumvarpinu er ríkisstjórnin að leggja fram áætlun þar sem er staðinn vörður um velferðina, öryggisnet samfélagsins, jafnframt því sem tekin eru skref til þess að tryggja velferðina til framtíðar því að grunnur hennar verður ætíð hagvöxtur. Vöxtur og vinna verða forsenda velferðarinnar.