143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:21]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir yfirferðina yfir þennan stóra og mikilvæga málaflokk sem félags- og húsnæðismálin eru. Það var ánægjulegt þegar nýr ráðherra tók við og ákvað að nefna sig ráðherra húsnæðismála, enda munu húsnæðismál verða mikið á dagskrá á næstunni.

Ráðherrar og þingmenn í ríkisstjórnarflokkunum hafa verið mjög sáttir við að hér væri lagt fram frumvarp þar sem skilað væri afgangi. Það vekur upp ýmsar athugasemdir sem ég hef við veikleikann í því en það sem er eðlilegt að ræða í því samhengi er að stórkarlaleg loforð um skuldaniðurfellingu hjá heimilum og stuðning við heimili út af húsnæðismálum, þeirra sér ekki stað í fjárlagafrumvarpinu. Því verður að huga að bótakerfum í húsnæðismálum þegar talað er um að byggja eigi upp öflugan leigumarkað sem sé raunverulegur valkostur fyrir fjölskyldur.

Þar koma til húsaleigubætur sem eru mun lægri en vaxtabæturnar að því leyti að mjög margar fjölskyldur njóta vaxtabóta ef þær kaupa sér húsnæði og valkosturinn að leigja verður ekki til staðar því að þá kemur ekki opinber stuðningur. Nú kann að vera að ráðherra sé að bíða eftir vinnu hópa sem eru að störfum en þá velti ég fyrir mér hvort það sé ekki meiningin að leggja til aukin framlög í húsnæðisstuðning við heimili á næsta ári og það hljóti þá að koma fram í fjáraukalögum því að vaxtabæturnar eru ekki að hækka, þó að þær heyri ekki undir þennan ráðherra, þrátt fyrir loforð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks um að koma til móts við heimili í gegnum skattkerfið ef þau falla ekki undir skuldaniðurfellingarhugmyndirnar.

Varðandi Íbúðalánasjóð er ég með spurningar um hann. Hér er talað um sérstakt árlegt framlag upp á 4,5 milljarða og það er að hluta til fram komið vegna IFS greiningar. Þar segir að útborgun framlagsins sé að hluta eða í heild skilyrt með því að viðhlítandi endurmat liggi fyrir. Þá velti ég fyrir mér: Hvenær er von á þessu viðhlítandi endurmati?

Það sem vekur áhyggjur er að 4. þingmál ríkisstjórnarinnar, sem er mjög gott frumvarp að því er mér virðist þótt það sé reyndar flókið fyrir þá sem eru ekki sérfræðingar í stimpilgjöldum, það frumvarp mun að öllum líkindum auka fjölda þeirra sem sjá hag í því að greiða upp lán hjá Íbúðalánasjóði. Þannig að þótt frumvarpið sé jákvætt fyrir (Forseti hringir.) lántakendur getur það haft áhrif á aukin útgjöld ríkisins vegna Íbúðalánasjóðs.