143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil ræða húsnæðisbæturnar aðeins nánar því að mér fannst það svolítið óljóst hjá ráðherra. Þess sér hvergi stað í frumvarpinu að fyrir liggi vilji til þess að breyta húsnæðisstuðningskerfinu. Ég vona að annaðhvort hafi ég misst af því og það sé þarna eða þá að það standi til þrátt fyrir að koma ekki fram í fjárlagafrumvarpinu. Ég held að ég ítreki að ef hér á í raun og veru að verða valkostur um leiguhúsnæði, ef ráðherra er að meina það sem hún segir þegar hún talar um það, verður að breyta húsnæðisstuðningskerfinu. Það eru allir sammála um sem eitthvað hafa kafað ofan í þau mál.

Ef forsenda þess að það sé hægt er sú að búið sé að lækka skuldir heimilanna, þar fáist meira fé í gegnum vaxtabæturnar og þá sé hægt að gera það, erum við ekki að tala um neinar breytingar á kerfinu á næstunni að því er virðist því að það er mjög óljóst hvenær sú skuldaleiðrétting getur átt sér stað og við fáum mjög óljós svör um það. Flokkurinn minn, Samfylkingin, hefur lagt fram tillögur um bráðaaðgerðir þar sem húsnæðisstuðningskerfið er mjög mikilvægur þáttur og mér finnst það mjög bagalegt ef þessi mikli áhugi í húsnæðismálum er látinn sitja á hakanum á meðan reynt er að finna leið til að framkvæma hinar stórkarlalegu hugmyndir um skuldaleiðréttingar.