143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:37]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, en verð þó að segja að orðalagið í frumvarpinu sem slíku olli mér vonbrigðum. Þar segir bara fullum fetum að fallið sé frá lengingunni. Þar er ekki sá tónn sem kemur fram í svari hæstv. ráðherra sem snýst í raun og veru um það að í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin verði markmiðum laganna ekki náð öðruvísi en með þeim hætti sem hæstv. ráðherra fór yfir í sínu svari. Ég tel mjög veikt fyrir málaflokkinn og fyrir stöðu fæðingarorlofsins og þeirrar sýnar sem við öll deilum, held ég, að orða það þannig að fallið sé einfaldlega frá lengingu fæðingarorlofs. Það er dálítið varanlegt miðað við ýmislegt annað sem rætt hefur verið hér í dag þar sem menn eru að tala um að nema þurfi staðar og gefa sér lengri tíma vegna þess að svigrúmið í ríkissjóði sé ekki meira en svo og svo, þannig að ég vil kalla eftir breyttri áherslu.

Svo langar mig bara af því að ég hef hér nokkrar sekúndur í viðbót að nefna Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem fær ekki aukið framlag til sinna starfa heldur bara til að mæta launa- og verðlagshækkunum. Við vitum að vandi Greiningarstöðvarinnar er gríðarlega mikill og þessari stofnun er ætlað að sinna öllu landinu. Það má auk þess gera ráð fyrir aukinni þörf fyrir þjónustu hennar vegna þess að þjónusta á Akureyri mun breytast eins og hæstv. ráðherra þekkir. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort staða Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins sé viðunandi og hvort það séu virkilega engin áform um að koma til móts við þá stöðu sem þar er. Á ráðgjafarstöðinni eru gríðarlega langir biðlistar og allt of löng bið í raun og veru í tíma talið þegar um er að ræða erfiða stöðu á þeim heimilum og hjá þeim börnum þar sem þjónustunnar er þörf.