143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:57]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir svörin, sem voru góð. Ég hef fulla trú á að okkur takist að auka hagvöxt og snúa málum til betri vegar þannig að við getum tryggt betur velferð og bætt grunnstoðir samfélagsins eins og við stefnum öll að, þannig að það komi okkur öllum til góða.

Ég er mjög bjartsýn á að góð niðurstaða fáist í málefnum Greiningarstöðvarinnar og þeirra stofnana sem verið er að kanna sameiningu á. Ástandið gengur ekki, að bíða þurfi marga mánuði eftir greiningu. Því fyrr sem við getum tekið á vandanum eða þeim málefnum sem vinna þarf með þeim mun betra er það fyrir þá einstaklinga sem þurfa á aðstoðinni að halda.

Það sýnir sig í þessu fjárlagafrumvarpi, sem snýr að velferðarráðuneytinu, að vörn undanfarinna ára er snúið upp í sókn í því sem snýr að málaflokki hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Ljóst er að nú er verið að forgangsraða í þágu heimila og velferðar.