143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:02]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Með þeim breytingum sem var farið í í sumar og með því að bráðabirgðaákvæði falli úr gildi nú um áramótin er búið að taka til baka meginþorra eða langstærstan hluta þeirrar skerðinga sem var farið í 1. júlí 2009. Það voru gerðar ákveðnar breytingar á skerðingum vegna fjármagnstekna þó að ekki hafi verið gerðar beinar breytingar á frítekjumarkinu þannig að það snýr raunar að þeim þætti. Það hefur verið til skoðunar hvernig best væri að útfæra það því að sú breyting var líka til einföldunar á kerfinu. Spurningin er hvað sé best að gera hvað það varðar.

Eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson þekkir ágætlega var eitt af því sem gert var í sumar að afnema skerðingu grunnlífeyris og elli- og örorkulífeyris vegna lífeyristekna og hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega þannig að þær eru þær sömu og hafa verið hjá þeim sem þiggja örorkubætur. Einnig var tekin ákvörðun um að framlengja frítekjumarkið vegna atvinnutekna hjá öryrkjum um eitt ár meðan unnið væri að því að ljúka heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Þar hefur verið lögð áhersla á að fara úr örorkumati yfir í starfsgetumat og ég tel að það verði forgangsatriði í vinnu nefndar við heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu.

Það sem gerist með þessu frumvarpi er að skerðingarhlutfall tekjutryggingarinnar mun breytast. Annað sem lagt er upp með og er nýtt snýr að breytingu á almannatryggingakerfinu og er það sem hefur verið kallað sveigjanleg starfslok. Síðan er það sem var aðalatriðið og kom fram í breytingum á frumvarpinu (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður hefur verið 1. flutningsmaður sem er að ljúka því að einfalda kerfið.