143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:07]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er miðað við neysluverðsvísitölu. Launavísitalan er hærri. Eins og hv. þingmaður benti á var það heilmikið gagnrýnt. Ég hef sjálf í tengslum við mína baráttu gegn verðtryggingunni lagt áherslu á að það sé mjög mikilvægt að við íhugum líka hvernig við stöndum að breytingum á upphæðum í fjárlagafrumvarpinu sjálfu.

Það kemur fram frá Seðlabankanum núna þegar hann skilaði gögnum um verðbólguþróunina, í ljósi þess að bankinn hefur ekki haldið sig innan vikmarka, að stór hluti af þeirri verðbólgu sem við erum að fást við sé til kominn vegna hækkana hjá hinu opinbera og síðan hækkana á ýmiss konar þjónustu innan lands. Það er því að mínu mati mjög mikilvægt að þegar við tökum ákvarðanir um hækkanir byggist þær á skýrri ákvörðun um að við teljum rétt að gera það og við teljum að það sé rétt að bæta kjör lífeyrisþega. Það endurspeglast náttúrlega í þessari miklu hækkun, við erum að hækka útgjöld til almannatrygginga um tæplega 12% eða 11,2% og það er verulegt.

Það er rétt að þetta var bráðabirgðaákvæði og fellur úr gildi um áramótin. Við höfum líka bent á að þrátt fyrir að þetta væri bráðabirgðaákvæði virtist vera gert ráð fyrir því í langtímaáætlun fjármálaráðuneytisins að það yrði framlengt. Það kom einmitt fram í umræðu í sumar.

Ástæður fyrir því að líka er horft til þess að taka til baka þessar skerðingar eru tölur sem hafa komið fram á ársfundi Tryggingastofnunar. Það eru fyrst og fremst eldri borgarar sem hafa orðið fyrir langmestu skerðingunum. Meðalráðstöfunartekjur eldri borgara fóru úr því að vera 246 þús. kr. árið 2008 í 216 þús. kr. í upphafi árs 2013 meðan aftur á móti meðalráðstöfunartekjur öryrkja hafa vaxið úr 202 þús. kr. upp í 219 þús. kr. á sama tíma. Þarna er því um verulega skerðingu að ræða og það sem núverandi stjórnarflokkar lofuðu var að taka til baka þær skerðingar. Það er staðið við það í fjárlagafrumvarpinu.