143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka fyrir ágætlega málefnalega umræðu sem farið hefur fram hér í allan dag og lýsa ánægju með það fyrirkomulag sem við höfum þróað á þinginu undanfarin ár að ráðherrar einstakra málaflokka geri grein fyrir áherslum sínum, svari andsvörum og taki þátt í umræðu um þau mál sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti. Það má segja að með þessari breytingu séum við nú þegar byrjuð að feta okkur inn á þær slóðir sem ný lög um opinber fjármál boða, þ.e. það frumvarp til laga sem ég hyggst leggja fyrir þingið í haust og er núna búið að vera til kynningar í nokkra mánuð en samkvæmt því viljum við fá einstaka ráðherra nær framkvæmd fjárlaganna og undirbúningi að fjárlögum. Mér finnst umræðan hér í dag bera þess vitni að það er skynsamleg breyting og gott fyrirkomulag.

Að öðru leyti vil ég segja um umræðuna að í sjálfu sér komi fátt á óvart. Það er algerlega hefðbundið að menn takist á um hvar eigi að beita aðhaldsaðgerðum. Við höfum séð það hér í þingsalnum í dag að stjórnarandstæðingar sem margir hverjir tóku áður þátt í mjög miklum aðhaldsaðgerðum undanfarin ár, ár eftir ár, hafa nú mjög sterkar skoðanir á því þegar aðhaldi er beitt á jafnvel sömu sviðum og aðhaldi þurfti að beita á árunum 2009–2013. Það er í sjálfu sér ekkert við því að segja annað en það að því meginstefi í þessu fjárlagafrumvarpi að markmiðinu um hallalaus fjárlög átti ekki að fórna. Til þess þurfti að beita aðhaldsaðgerðum og tekjuaðgerðum ásamt með öðrum ráðstöfunum til þess að komast réttum megin við núllið.

Það hefur verið nefnt alloft í umræðunni síðan fjárlagafrumvarpið kom fram að ný ríkisstjórn hafi kastað frá sér tekjustofnum. Staðreyndin er þó sú að í þessu fjárlagafrumvarpi eru teknir inn með breikkun tekjustofna nýir 7 milljarðar umfram það sem ella hefði verið. Þeir 7 milljarðar eru umfram þá skatta sem nefndir eru til sögunnar til vitnis um að menn hafi kastað fyrir róða einhverjum möguleikum til þess að auka tekjur ríkisins. Þetta samhengi finnst mér mjög mikilvægt að sé haft í huga. Þar fyrir utan erum við hugmyndafræðilega ekki á sama staðnum þegar menn tala þannig að ríkið sé að kasta frá sér tekjum þegar hlutir eru ekki skattlagðir, ég tala nú ekki um þegar þeir eru sérstaklega hátt skattlagðir, að það heiti að kasta frá sér tekjum. Það finnst mér einfaldlega rangnefni. Sérstaklega finnst mér það eiga við um útgerðina.

Ég hef tekið eftir því að menn tala um að útgerðin njóti sérstakra forréttinda hjá þessari ríkisstjórn, en staðreynd málsins er sú að hún hefur líklega aldrei áður nema mögulega á árinu 2013 greitt hærri skatta og gjöld þegar saman er talið. Líklegra þykir mér að þegar upp er staðið verði árið 2014 það ár sem gjöldin verði hærri einfaldlega vegna þess að útgerðarfélög hafa verið að greiða niður skuldir undanfarin missiri og eru smám saman að brenna upp skattalegu tapi. Mér finnst því líklegt að á næsta ári muni útgerðin greiða hærri opinber gjöld en nokkru sinni fyrr.

Það er líka misskilningur sem hefur komið fram í umræðunni að breytingar sem ný ríkisstjórn gerði á sumarþinginu hafi verið sérstaklega til þess að ívilna stórútgerðinni. Þegar betur er að gáð sést að stærstu útgerðarfyrirtækin fengu á sig auknar álögur en minni fyrirtækin fengu minni álögur en áður var kveðið á um í lögunum. Ég vildi rétt minnast á þetta samhengi hlutanna varðandi tekjuhlið frumvarpsins.

Síðan finnst mér afar mikilvægt að hafa í huga að ástæðan fyrir því að ríkissjóður hefur verið rekinn með halla fram á þennan dag frá hruni er ekki sú að skattar hafi ekki verið hækkaðir nægjanlega. Ástæðan er heldur ekki sú að ekki hafi verið beitt nægjanlega miklum aðhaldsaðgerðum því að vissulega hefur miklum aðhaldsaðgerðum verið beitt undanfarin ár. Það má glögglega sjá af fjárlagafrumvarpi ársins 2013. Þar eru ágætissamantektir um það hvernig uppsafnaðar aðhaldsaðgerðir færast niður á málaflokka. Mjög miklu aðhaldi var beitt undanfarin ár. Nei, ástæðan er sú að hér hefur ekki verið sá vöxtur í hagkerfinu sem þurfti að vera. Okkur hefur ekki tekist að skapa að nýju þau störf sem töpuðust í hruninu. Það er meginástæðan. Það skiptir svo miklu máli að fá aftur fjárfestingu og eftirspurn í hagkerfið að það ræður algjörum úrslitum um það hvort við náum okkur aftur á strik og getum hafið niðurgreiðslu skulda og fengið alvöruviðspyrnu eða ekki.

Eitt lítið dæmi get ég nefnt í því samhengi. Á árinu 2013 breytast grunnforsendur eftir að fjárlög voru sett til lækkunar á hagvexti. Það hefur meðal annars í för með sér að nú er því spáð að virðisaukaskattstekjur verði um 5 milljörðum lægri á árinu 2013 en menn gerðu ráð fyrir þegar fjárlagafrumvarpið var afgreitt hér fyrir tæpu ári. Þó eru almennt þau reiknimódel sem notuð eru til þess að spá fyrir um tekjuhorfurnar orðin býsna vel þróuð og ágætlega nákvæm. Munurinn liggur aðallega í umsvifunum í hagkerfinu, hann liggur í því að fjárfesting er langt undir því sem að var stefnt og hann liggur í því að einkaneyslan er enn í talsvert miklum dvala.

Komið hefur verið inn á það að opinber fjárfesting, þ.e. fjárfesting ríkisins, eins og hún birtist í þessu fjárlagafrumvarpi sé áfram lág. Það er hægt að taka undir það. Hún er mjög lág einfaldlega vegna þess að við sáum ekki mikið svigrúm til þess að gefa í við þessar aðstæður. Við töldum rétt að leggja fyrst áherslu á það að loka fjárlagagatinu. En í því samhengi, í þeirri umræðu er líka mjög mikilvægt að hafa í huga að það er auðvitað atvinnuvegafjárfestingin sem við þurfum fyrst og fremst að fá í gang, fjárfesting frá atvinnulífinu, frá hinum hefðbundnu atvinnugreinum og nýjum atvinnugreinum. Þegar menn nefna nýjar atvinnugreinar er gjarnan klifað á því að í þessu frumvarpi fái hinar nýju skapandi greinar ekki nægilega mikinn stuðning. Ég segi þá á móti að stuðningurinn er vaxandi ef við horfum á meðaltal undanfarinna ára. Það er að nokkru dregið úr miðað við áformin eins og árinu 2013 var stillt upp, enda var sú innspýting sem kom inn í hina ýmsu sjóði til þess að styrkja rannsóknir, þróun, ég nefni Tækniþróunarsjóð, og græna hagkerfið og aðra slíka þætti, einfaldlega ekki nægilega vel fjármögnuð. Menn voru komnir aðeins fram úr sjálfum sér. Það stefnir þess vegna í 30 milljarða í halla á þessu ári sem ég geri ekki ráð fyrir að hafi verið sá grundvöllur fyrir þessa innspýtingu sem menn sáu fyrir sér að geta stuðst við. Þvert á móti kom þessi innspýting vegna þess að menn töldu sig vera að ná því sem næst jöfnuði.

Horfum síðan til heilbrigðismálanna sem eru í raun og veru á oddinum í umræðunni hér í dag og í gær. Ég tek eftir því í opinberri umræðu jafnframt. Menn segja, eftir að fjárlögin komu fram, á forsíðu eins blaðsins í dag að heilbrigðiskerfið sé á heljarþröm. Það má þá hafa verið komið í býsna slæma stöðu þegar ný ríkisstjórn tók við vegna þess að framlög t.d. til Landspítalans dragast ekkert saman frá því sem lagt var upp með árið 2013 í fjárlögum, þau dragast ekki saman, það er verið að bæta í miðað við fjárlög yfirstandandi árs.

Svo geta menn tekið umræðuna um það hvort eðlilegt sé að kyngja því bara að Landspítalinn sé nú þegar kominn fram úr fjárlögum og það sé þá bara hinn nýi veruleiki og við eigum að nota það sem einhvers konar núllpunkt og velta því fyrir okkur hverju við eigum að bæta þar ofan á. Varla væri það gott fordæmi fyrir aðrar ríkisstofnanir alls staðar annars staðar í kerfinu að þingið sendi út þau skilaboð að hafi menn ekki haldið sig innan fjárheimilda sé það bara sjálfsagt og eðlilegt að það verði hið nýja viðmið þegar menn taka saman fjárlög næsta árs. Nei, ég held nú síður. Ég held að við þurfum að staldra frekar við og spyrja okkur hvers vegna menn fóru fram úr. Hvaða liðir voru það? Voru það veikleikar í fjárlagagerðinni eða voru það veikleikar við framkvæmd fjárlaganna sem leiða til þessarar niðurstöðu? Það verður væntanlega verkefni fjárlaganefndar sem fær málið núna til meðferðar að fara ofan í þætti eins og þessa.

Að öðru leyti vil ég þó segja að það er einkum tvennt sem er nefnt hér varðandi heilbrigðismálin. Það eru málefni sem tengjast landsbyggðinni og því hvernig við höldum áfram úti góðri grunnþjónustu um allt land og svo málefni sem tengjast Landspítalanum.

Varðandi þjónustuna úti á landi hljótum við að geta verið sammála um það að við þurfum með einhverjum hætti að aðlaga okkur að þeirri staðreynd, þeim veruleika að við getum ekki haldið uppi sama þjónustustigi og við getum gert á háskólasjúkrahúsinu, Landspítalanum, um allt land. Við þurfum hins vegar að tryggja góða, öfluga grunnþjónustu eins og hægt er miðað við aðstæður og síðan þurfum við að veita okkar bestu þjónustu á ákveðnum kjörnum, þ.e. stærri sjúkrahúsum. Landspítalinn hlýtur í því samhengi að verða flaggskip okkar.

Varðandi Landspítalann sérstaklega er annars vegar hér mest rætt um tækjakaupin og hins vegar rekstrarframlagið. Auðvitað spilar síðan inn í þetta framtíð Landspítalans og möguleikarnir á því að klára áform um uppbyggingu á sjúkrahúsinu. Um þetta vil ég segja í fyrsta lagi varðandi tækjakaupin: Meginástæðan fyrir því að tækjakaupin rata ekki inn í fjárlögin að þessu sinni er sú að á síðasta þingi var ákveðið tímabundið framlag til eins árs. Það er varla hægt að halda því fram að það sé sérstök ákvörðun að láta það falla niður. Það kemur skýrt fram í skýringum frá fjárlaganefnd að þetta var tímabundið til eins árs. Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár kemur jafnframt fram að nú sé unnið að langtímaáætlun um þörfina fyrir tækjakaup og við vonumst til að geta skilað henni hingað inn á haustmánuðum þannig að hún komi til meðferðar meðan málið er í nefnd. Að öðru leyti þegar horft er á báða þessa liði, tækjakaupin og þörfina sem menn vilja meina að sé fyrir aukið framlag í rekstrarkostnaðinn, þá ættu fjárhæðirnar samantalið ekki að láta menn skjálfa á beinunum í samhengi við þann mikla halla sem er á yfirstandandi ári. Við erum hér að tala um og takast á um stærðir fyrir heilbrigðiskerfið, sem er nú að taka mest til sín í fjárlögum heilt yfir, sem eru einhvers staðar á bilinu 1–2 milljarðar sýnist mér þegar allt er samantekið.

Ef ágreiningurinn í heilbrigðismálum snýst um einhverja slíka fjárhæð þá erum við búin að komast býsna langt í þessari umræðu. Þá erum við búin að komast býsna langt svona almennt í fjárlagagerðinni með því að vera komin réttum megin við strikið og ágreiningurinn sem er uppistaðan að umræðunni í þinginu snýst um 1 eða 2 milljarða, eitthvað slíkt, þ.e. hvorum megin við núllið við lendum með þessum 1 eða 2 milljörðum.

Ég segi fyrir mitt leyti: Við eigum alls ekki að gefa eftir markmiðið um að vera réttum megin við núllið. Við getum rætt það hér hvort hægt sé að skapa svigrúm, hvort breyttar forsendur sem kunna að koma fram í nýrri þjóðhagsspá gefi einhverja viðspyrnu eða við sjáum tækifæri til þess að breyta forgangsröðun betur í þágu heilbrigðisþjónustunnar í vinnslu málsins hér á þinginu, en við eigum alls ekki að gefa eftir markmiðið um hallalaus fjárlög. Þetta bil sem mér sýnist að sé grundvöllurinn að umræðunni hér um heilbrigðismál hlýtur að vera brúanlegt ef menn á annað borð hafa einbeittan ásetning um að toga allir í sömu átt.