143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Örstutt. Mér finnst mikilvægt að því sé haldið til haga vegna heilbrigðismálanna að hv. þingmaður hefur nefnt það nokkrum sinnum í umræðunni að hann hafi ekki órað fyrir að menn hefðu hugmyndaflug til þess að draga saman á velferðarsviðinu. En það er ekki verið að draga saman. Aukningin til velferðarmálanna undir velferðarráðuneytinu er 7% frá fjárlögum ársins 2013. Ef við horfum bara á tryggingamálin er aukningin 9%. Á bls. 375 í frumvarpinu kemur fram hvernig ný ríkisstjórn leiðir með ákvörðunum um mitt sumar 2013 til aukinna útgjalda á næsta ári. Síðan eru það sjúkrahúsin og sérstaða sjúkrahúsþjónustunnar á bls. 380. Þar sem kemur alveg skýrt fram að það er aukning á þessum fjárlögum borið saman við fjárlög gildandi fyrir árið 2013 upp á 3,8%. Það er ekki mikil hækkun, en að verulegum hluta til í launaliðnum.

Það er rétt sem fram hefur komið í umræðunni að þá er ekki tekið fram þar sem menn virðast ætla að fara fram úr í sjúkrahúsunum á árinu 2013, en það er hins vegar ekki rétt að verið sé að skera niður á þessum sviðum. Það er einfaldlega ekki rétt.

Síðan eru það tekjurnar. Hafi það farið fram hjá einhverjum þá er það grundvallarforsenda í þessu frumvarpi að með því að skilja eftir tekjur hjá heimilunum upp á 5 milljarða með því að lækka tekjuskattinn veitum við súrefni til heimilanna í landinu. Menn segja að þetta séu lágar fjárhæðir. Já, það er vegna þess að þær dreifast svo víða.

Í tryggingagjaldinu er alveg sama grunnhugsunin að baki. Þegar lækkanir á tryggingagjaldi eru komnar að fullu til framkvæmda er hugsunin sú, bara þannig að það sé alveg skýrt, að það gefi súrefni til atvinnulífsins til þess að standa (Forseti hringir.) undir kjarabótum og aukinni fjárfestingu.