143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að hækkanir eru á ákveðnum liðun eins og almannatryggingum.

Ég hafði þann sið sem ráðherra að reikna mér aldrei til tekna þá fjölgun sem var á lífeyrisþegum eða þegar tekjur ellilífeyrisþega og öryrkja hrundu í kerfinu, sérstaklega ellilífeyrisþega, og þeir misstu út allar fjármagnstekjur — við bættum við allt að 10 milljörðum til að bæta þeim það upp. Það bætti ekki hag hvers og eins ellilífeyrisþega. (Gripið fram í: Jú.) Við erum gagnrýnd fyrir það, kerfið virkaði bara. Það sem verið er að gagnrýna okkur fyrir er að hafa ekki staðið við fyrirheit og loforð um að greiða til baka. Það verður að skila sér til hvers og eins en ekki í heildartölu vegna aukningar eða vegna þess að verið er að bæta inn.

Ég vakti athygli á því hér áðan í velferðarumræðunni að það sem verið er að gera í þessu fjárlagafrumvarpi var ákveðið fyrir fram. Þótt rétt sé að það hafi vantað inn í fjárlögin, það voru mistök hjá fjármálaráðuneytinu og var viðurkennt og staðfest þegar við lögðum fram frumvarpið um almannatryggingar, átti að draga til baka bráðabirgðaákvæði um skerðingar ef ekki væri komið nýtt almannatryggingafrumvarp. Hins vegar kom afnám víxlverkana, sem samþykkt var um 2010, til framkvæmda um áramót. Við skulum fagna því. Það er engin ástæða til að gera lítið úr því.

Sá hópur sem er bara með bætur situr svo eftir. Prósentan á þessum bótum er ekki í samræmi við regluna um að taka hærri vísitöluna hvað það varðar.

Varðandi tekjurnar geta menn deilt um þær. Ef þessir 5 milljarðar kr. skapa aukinn hagvöxt ætti þess að sjá stað í frumvarpinu. Sama er með tryggingagjaldið. Við höfum deilt þeirri skoðun að lækka þurfi tryggingagjaldið einmitt því að það leggst fyrst og fremst á þá sem eru með marga starfsmenn, en 0,1% er svo sem ekki stórt skref þar, það eru ákveðin skilaboð til þess að verja kosningaloforðin en ekkert annað.