143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er grundvallarmunur á því hvort við erum að ræða um heilbrigðismálin á þeirri forsendu að frumvarpið boði mikinn niðurskurð eða hvort ekki sé staðið við öll loforð um hækkanir. Það var við þetta sem ég vildi gera athugasemd í mínu fyrra andsvari. Ég tel að fjárlagafrumvarpið beri það með sér að ekki er um niðurskurð að ræða, hvorki í tryggingamálum né heilbrigðismálum. Því er hins vegar ekki haldið fram að í því séu mjög miklar hækkanir. Þá er vísað í hversu miklum járnum ríkisfjármálin eru og takmarkað svigrúm.

Við munum að sjálfsögðu vinna áfram með þessi verkefni og getum vonandi unnið þannig að við leysum úr því sem blasir við okkur sem mest aðkallandi vandinn án þess að fórna markmiðinu um hallalaus fjárlög. Ég vil alveg sérstaklega og hefði átt að gera það í minni fyrri ræðu þakka fyrir það að ég heyri menn ekki tala fyrir því að við eigum að fórna því markmiði, jafnvel þótt menn hafi ýmsar athugasemdir. Mér heyrist vera góður samhljómur í þinginu um að það sé komið gott af skuldasöfnuninni. Það skiptir gríðarlega miklu máli.

Varðandi tekjurnar held ég að við hv. þingmaður getum seint orðið sammála um þær. Ég tel mjög mikilvægt að hefja ferlið við að koma súrefni aftur til heimila og fyrirtækja. Það er rétt að 0,1% í tryggingagjaldi er ekki stórt skref, en það er boðað að haldið verði áfram síðar.