143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar menn tala um að ný ríkisstjórn hafi afsalað sér tekjum og setja það í samhengi við hallann á yfirstandandi ári finnst mér að hv. þingmaður hafi svo sem tekið það vel saman, og betur en flestir aðrir, að það er hlutfallslega lítið af hallanum eins og hann virðist ætla að verða á yfirstandandi ári. Síðan er það umræðan um það hvað sjávarútvegurinn getur borið og hvar ytri mörkin séu í því. Við ættum að minnsta kosti að hugga okkur við það að hann er að borga meira, eins og ég rakti í fyrri ræðu minni, en nokkru sinni fyrr. Þá segja menn: Já, hann er nú í þeirri stöðu að geta borgað meira en áður. Já, og hann er að gera það.

En síðan er önnur athugasemd sem ég verð að koma á framfæri hér og hún er þessi: Menn telja greinilega að gangi menn ekki lengra í því að taka veiðigjöld þá hverfi peningarnir bara og gufi einhvers staðar upp. En það er sem betur fer ekki þannig. Þeir verða þá eftir í því að kaupa tæki og tól, að viðhalda samkeppnisstöðu greinarinnar, að tryggja besta búnað, að menn haldi áfram að fjárfesta í nýjum skipum, að menn haldi áfram að þróa aðferðir til að auka verðmæti sjávarfangs úr sjó og haldi þannig áfram að viðhalda því sem er í raun yfirburðastaða, að minnsta kosti mikið forskot sem við í augnablikinu höfum á aðrar þjóðir í því að viðhalda verðmætunum í afurðunum sem koma úr hafinu.

Þetta held ég að verði nú að takast með í reikninginn. Síðan er það varðandi veikleikana fram á við, ég er einfaldlega sammála hv. þingmanni um það að staðan fram á við er ekki nógu góð. En við höfum úr mörgu að spila. Við getum til dæmis farið í að létta á eignum sem ríkið hefur eignast í hruninu. Vonandi getum við orðið sammála um það, þegar fram líða stundir, (Forseti hringir.) hvernig standa eigi að því. Ekki síður verð ég að segja: (Forseti hringir.) Vonandi skapast góð skilyrði til að koma þeim eignum í verð.