143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það þarf alltaf að vega það og meta vel og vandlega hvort ríkið geri rétt í því að afsala sér eða selja þær eignir, losa þær eða láta þær skila af sér arði. Ef við tökum Landsvirkjun sem dæmi þá væri það um það bil það síðasta undir sólinni sem ég teldi að íslenska ríkið og þjóðin ætti að láta frá sér. Það er augljóst mál að þessi sameign okkar getur skilað vaxandi arði á komandi árum til eiganda síns, þjóðarinnar, ef við höldum rétt á spilunum. Hvers vegna ættum við þá að láta það frá okkur?

Varðandi sjávarútveginn þá veifa menn því hér mikið að hann borgi núna meiri skatta til ríkisins en áður. Það er rétt. Um 20 milljarða, hafa einhverjir sagt hér og ég dreg ekki úr því að það geti verið nærri lagi ef við tökum skattgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækjanna. En hvers vegna er það? Jú, það er vegna þess að sjávarútvegurinn er loksins farinn að borga tekjuskatt. Stór hluti fyrirtækjanna er nú búinn að vinna upp allt uppsafnað tap, sum þeirra eru orðin skuldlaus og eru með þvílíka fantaafkomu að auðvitað borga þau tekjuskatt. Það er gott og ég er sammála því að sjávarútvegurinn þarf að vera sterkur og hann þarf að geta fjárfest og hann þarf að geta byggst upp.

En það fara ekki bara peningar í það. Það fara líka peningar í hæstu arðgreiðslur, einhverjar hæstu arðgreiðslur sem við höfum séð ganga ár eftir ár út úr einni atvinnugrein til eigenda sinna. Þær arðgreiðslur eru sprottnar af því að sjávarútvegurinn hefur þennan verðmæta aðgang að sameiginlegri auðlind sem er í óvenjulega góðu ástandi og gefur færi á mjög mikilli arðsemi eins og við sjáum á stóru fyrirtækjunum til dæmis sem hafa sterka stöðu í veiðiheimildum í uppsjávartegundum. Ég man ekki dæmi rekstrar sem skilar jafn vel af sér og til dæmis rekstur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað þessi missirin. 7 milljarða hagnaður á þó ekki meiri veltu en þar er auðvitað fádæma góð afkoma, fádæma góð afkoma og það er í þetta sem við erum meðal annars að vísa. (Forseti hringir.) Ef við lítum yfir greinina í heild þá hefur hún mikla burði til að leggja líka af mörkum.