143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé í sjálfu sér ekki neitt að því að eigendur í sjávarútvegsfyrirtækjum, sem margir hverjir hafa tekið gríðarlega mikla áhættu með eigin fjárframlagi, greiði sér arð um þessar mundir eftir að hafa greitt skatta og öll gjöld, þar með talin veiðigjöld. Ég fagna því sérstaklega að afkoma í greininni er góð og ég veit að hv. þingmaður gerir það líka, ég heyri ekki annað. Ég veit að hann þekkir það alveg örugglega, og meira að segja miklu betur en ég, hversu miklir máttarstólpar fyrirtæki sem ganga svona vel eru heima í þeim byggðum þar sem þau starfa, bæði í atvinnulegu tilliti en síðan langt út fyrir þann beina starfsmannakjarna sem hefur beina framfærslu af því að starfa í viðkomandi félögum.

Ég vildi koma aðeins inn á fjárfestingaráætlunina sem alloft hefur borið á góma í umræðunni og taka það fram enn og aftur að meginástæðan fyrir því að dregið er úr ýmsum þeim áætlunum sem henni fylgja er sú að ríkissjóður er rekinn með halla. Það er afstaða sem ný ríkisstjórn tekur að setja sér; fyrst það markmið að eyða ekki um efni fram og forgangsraða síðan í kjölfarið. Það er staðreynd að suma hluti er mun erfiðara að hreyfa en aðra. Áform um að auka við framlög í ýmsa sjóði er til dæmis auðveldara að draga til baka en að fara að segja upp lögreglumönnum eða fækka á spítölum. Það gera menn ekki og það birtist ákveðin forgangsröðun í þessu.

Ég vek athygli á því að margir af þeim sjóðum sem nefndir eru í þessu sambandi — tökum til dæmis Tækniþróunarsjóð eða framlag til kvikmyndagerðar — eru þannig á næsta ári að þegar við notum ekki árið 2013 sem viðmið heldur árið 2012 (Forseti hringir.) eða meðaltal síðustu þriggja ára þá eru framlögin á næsta ári (Forseti hringir.) vaxandi.