143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða samantekt á áherslum Bjartrar framtíðar og get samsinnt honum um ýmislegt af því sem fram kom í máli hans eins og t.d. um mikilvægi þess að hér skjóti rótum fleiri atvinnugreinar. Björt framtíð hefur verið dugleg við að benda á að það sé mjög mikill akkur í því fyrir okkur Íslendinga ef hér nái að vaxa og dafna greinar sem hafa ekki neinar náttúrulegar takmarkanir á vextinum, eins og á við um mörg fyrirtæki sem starfa hér eingöngu á innlendum markaði.

Ég verð hins vegar að segja að mér finnst ég verða of mikið var við það í umræðunni að menn leggi áherslu á leiðir til þess að þvinga einhvern veginn fram á tekjuhliðinni frekari tekjur til að standa undir sameiginlegum verkefnum. Þá virðast menn ekki sjá neina aðra leið en annaðhvort að kynna til sögunnar nýja skatta eða hækka skattana sem fyrir eru.

Tölurnar bera það með sér að jafnvel þó að skattar hafi verið hækkaðir mjög mikið undanfarin ár, skattprósentur teknar upp, nýir skattar kynntir til sögunnar og þeir sem fyrir voru færðir upp í áður óþekktar hæðir, hafa skatttekjur sem hlutfall af landsframleiðslunni því miður ekki stigið í neinu samræmi við það. Það er af þeirri ástæðu sem við þreytumst ekki á að benda á hversu mikið við eigum undir því að kakan stækki eins og ég nefndi fyrr í kvöld. Ef umsvifin hefðu bara verið meiri á þessu ári hefðum við fengið 5 milljarða til viðbótar í virðisaukaskattstekjur á árinu 2013, 5 milljarða umfram það sem stefnir í. Það eru fyrst og fremst aðgerðir sem auka umsvifin sem munu skila sér á tekjuhlið ríkisfjármálanna.