143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:16]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. fjármálaráðherra að auka þarf tekjurnar en ég er einfaldlega að benda á að það er ekki gert, ekki með þeim hætti sem t.d. mjög virt ráðgjafarfyrirtæki hafa bent okkur á. Með því að auka framleiðni í samfélaginu, með því að draga úr fákeppni, með því að fella niður viðskiptahindranir, auka alþjóðlega samkeppni og innflæði erlends fjármagns. Það er það sem kemur til með að styrkja atvinnulífið mest.

Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er mér hjartanlega sammála í þessum efnum. Því miður býður hinn pólitíski veruleiki sem hann býr í ekki upp á þann möguleika. Við vitum að við þurfum að auka samkeppni í samfélaginu, fjölga atvinnugreinum, hafa fleiri stoðir í atvinnulífi okkar.

Ég og hæstv. fjármálaráðherra urðum samferða á fund fylkisstjórnar Manitoba-ríkis síðastliðið haust og sáum þar sneiðmynd eða kökumynd af skiptingu atvinnustoðanna þar sem báru uppi hagvöxtinn. Fjölbreytt atvinnulíf sem getur jú vissulega verið dálítið leiðinlegt en það býr við mikinn stöðugleika og er traust. Það er akkúrat það umhverfi sem fyrirtæki og fjölskyldur þurfa einna helst á að halda til að vaxa og dafna og búa við öryggi. Það er það sem við eigum að róa að öllum árum. Því miður sakna ég þess að þeirrar róttækni sem við í Bjartri framtíð hvöttum til sjái ekki stað í áætlunum ríkisstjórnarinnar.