143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en vildi gjarnan geta um eitt, ég ætla að vona að menn fyllist ekki allt of mikilli bjartsýni. Ríkissjóður skuldar um 1.500 milljarða og þar af 1 þús. milljarða innan lands. Verðbólga er í öllum myntum, verðbólga étur upp innstæður og sparnað og verðbólga étur upp skuldir líka. Ef ríkissjóði er skilað með raunverulegum hagnaði eða núlli eins og 0,5 milljarðar eru, það er nánast núll í veltu ríkissjóðs, rýrna í rauninni innlendar og erlendar skuldir vegna þess að ríkissjóður borgar alla vexti, það er hluti af gjöldunum.

Ef við gerum ráð fyrir því að 1 þús. milljarðar séu innan lands sem er með 4% verðbólgu ést sú skuld upp um 40 milljarða á ári. Í erlendu skuldunum er minni verðbólga. Í evrunni er 1% í dag, var 2% fyrir hálfu ári, og þar má reikna með því að 5–10 milljarðar étist upp. Afgangurinn er í rauninni 45 milljarðar en ég ætla að vona að menn fari ekki að eyða honum.