143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

staða bankakerfisins.

[13:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú þegar fimm ár eru liðin frá hruni íslenska fjármálakerfisins vildi ég nota tækifærið og inna hæstv. forsætisráðherra eftir nokkrum atriðum sem tengjast fjármálakerfi okkar og stöðu þess eftir fimm ár og þá kannski til að byrja með því sem mikið hefur verið rætt eftir hrunið og er staða innstæðnanna í viðskiptabönkum og sparisjóðum í landinu, hvort þær njóta ríkisábyrgðar og um viðhorf ráðherrans til þess og hvort áform eru uppi um einhverjar breytingar í tengslum við það atriði.

Sömuleiðis skylt þessu hefur mikið verið til umræðu og við mörg flutt þingmál ítrekað um nauðsyn þess að skilja á milli fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi, m.a. til að draga úr hættu skattgreiðenda í kerfinu. Ég vildi inna forsætisráðherra eftir sjónarmiðum hans gagnvart þessu og hvort hann telji nauðsynlegt að skilja á milli fjárfestingarbankastarfseminnar og viðskiptabankastarfseminnar eða hvort hann telji fullnægjandi að hafa fína múra á milli einhverja deilda þar eins og áttu að vera fyrir hrun.

Í þriðja lagi hefur nokkuð verið rætt um það að til álita komi á næstu missirum að selja hlut í viðskiptabönkunum úr eigu ríkisins og e.t.v. úr eigu kröfuhafa. Þá vildi ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann telji nauðsynlegt áður en til þess kemur að settar verði skorður við því hvað einn aðili geti átt stóran hlut í banka í ljósi þess hversu illa fór fyrir okkur m.a. vegna þess að fáir aðilar og jafnvel einn var allsráðandi í heilu viðskiptabönkunum og viðskipti þeirra á milli leiddu til mikils ófarnaðar.

Loks vildi ég spyrja hæstv. forsætisráðherra um það sem hann boðaði í viðtali við Bloomberg í vor sem eru fjármagnshöftin og sú áætlun sem hann lofaði að mundi líta dagsins ljós í sumarlok. Ég vil spyrja ráðherrann hvers vegna hún sé ekki fram komin og hvort það sé ekki óheppilegt að valda óvissu um áætlanir stjórnvalda um afnám hafta og hvers vegna orð forsætisráðherrans um þetta hafi ekki verið efnd og hvort það sé einhver áherslumunur eða deilur innan stjórnarflokkanna um það með hvaða hætti eigi að haga þessari áætlun.