143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

staða bankakerfisins.

[13:34]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágætlega greinargóðar og skýrar spurningar. Fyrst varðandi stöðu innstæðna, hún er óbreytt en hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur kynnt að til standi að skoða og endurmeta þá stöðu og taka ákvörðun um hvort ástæða sé til að gera þar breytingar á.

Hvað varðar fjárfestingarbanka og viðskiptabanka og möguleikana á því að skipta upp slíkri starfsemi þá held ég að ég hafi tjáð mig nokkrum sinnum um að ég sé mjög áhugasamur um það. Ég var mjög ósáttur við hvernig staðið var að stofnun nýju bankanna á sínum tíma, en þeir hafa verið stofnaðir og eru reknir á þann hátt sem þeir eru reknir nú. Það kann hins vegar að vera að með lagasetningu verði eitthvert svigrúm til að færa eða ýta þessum fjármálastofnunum meira í það horf sem hv. þingmaður spyr um, þ.e. gera þarna aukinn greinarmun á.

Í þriðja lagi varðandi skorður við því hversu stóran hlut ákveðnir aðilar geta eignast í bönkum, hvort ég sé hlynntur því að setja slíkar skorður, þá er svarið við því já.

Loks um áætlun um afnám hafta. Þarna vitnar hv. þingmaður enn og aftur í viðtal sem menn hafa mikið vitnað í og kannski leyft sér að snúa örlítið út úr, en ég sagði vissulega að ég vonaðist til þess að í haust hefðu menn betri mynd af því hvað væri fært við losun hafta og sú er raunin. Menn hafa betri mynd af því nú en áður og eru að fá af því allskýra mynd en eðli málsins samkvæmt — og ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn skilning á því enda birtist það oft í orðum hans sem formanns efnahags- og skattanefndar — þá er ekki hægt að nefna ákveðna dagsetningu um það hvenær höft verði afnumin.