143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

staða bankakerfisins.

[13:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Ég skil þau svo að staða innstæðna sé óbreytt og þær njóti enn ríkisábyrgðar en heyrist á hæstv. forsætisráðherra að hann telji vera of seint að skilja á milli fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Ég vil lýsa mig ósammála því. Ég tel að fjárfestingarbankastarfsemi sé enn tiltölulega lítil í þeim viðskiptabönkum sem hér eru og við eigum ekki að láta tækifærin fram hjá okkur fara heldur fara alla leið í því verkefni að skilja að fjárfestingarbankastarfsemina og viðskiptabankastarfsemina.

Það gleður mig að heyra að við erum sammála, ég og hæstv. forsætisráðherra, um að það verði að setja skorður við því hvað einn aðili geti átt mikið í viðskiptabanka. Ég hygg að í einu nágrannalanda okkar sé það viðmið um 10% og vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða viðmið honum þyki eðlilegt í því sambandi.

Að lokum, erfitt er að nefna dagsetningu um hvenær eigi að afnema höft, en eigum við eða eigum við ekki von á áætlun nýrrar ríkisstjórnar um losun hafta eða verður gamla áætlunin bara látin gilda?