143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

efnahagsmál.

[13:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra og leiðtoga ríkisstjórnarinnar um stöðu efnahagsmála og um ríkisfjármálin og hvaða stefnu hæstv. ríkisstjórn mun taka í þeim efnum. Nýkomið fjárlagafrumvarp miðast við þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í sumar sem gerir ráð fyrir 2,7% hagvexti á árinu 2014 sem yrði knúinn áfram af auknum vexti einkaneyslu og fjárfestingar. Hagvöxtur hefur verið undir væntingum í ár eins og hæstv. forsætisráðherra er kunnugt þó að hann sé með því mesta sem gerist í Evrópu. Miðað við rit Seðlabanka Íslands, sem kom út í dag, um fjármálastöðugleika eru menn mjög varfærnir í hagvaxtarspám og benda á að hagvaxtarhorfur séu þar mjög háðar áformum um stóriðjufjárfestingu. Það er því ekkert ólíklegt að ný þjóðhagsspá sem kemur í nóvember geri ráð fyrir versnandi horfum og minni hagvexti ef við lesum í gegnum þetta rit.

Þegar hafa verið boðaðar ákveðnar útgjaldaaukningar og ég nefni bæði það sem hefur verið nefnt í tengslum við Matvælastofnun og líka yfirlýsingu frá hæstv. fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra um áætlun um tækjakaup fyrir Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri en tillögur eiga að liggja fyrir fyrir 2. umr. Miðað við þessar hagvaxtarhorfur, miðað við þau útgjöld sem hafa verið boðuð — og ég veit að hæstv. forsætisráðherra hefur talað um nauðsyn þess að hefja sókn í eflingu innviða á borð við heilbrigðisþjónustuna — vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái fyrir sér, til að ná markmiði um hallalaus fjárlög sem ríkisstjórnin hefur sett á oddinn, að það náist eða hvort við megum þá eiga von á tillögum um aukna tekjuöflun milli umræðna eða tillögum um aukinn niðurskurð. Mér finnst mikilvægt að hv. þingmenn velti þessu fyrir sér í ljósi þess hverjar horfurnar eru.