143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

óskráðar íbúðir sem leigðar eru ferðamönnum.

[13:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Ég hef áður lýst því héðan úr ræðustóli á Alþingi að ég fagni sérstaklega aukningu á fjárheimildum sem boðuð er til löggæslu á næsta ári. Engu að síður er það þannig að í raun ætti eftirlit af þessu tagi, ef unnt yrði að ráðast í það, að borga sig upp sjálft.

Ég get upplýst það hér að sá sem ekki hefur fullgilt leyfi til að reka starfsemi af þessu tagi þarf að greiða 50 þús. kr. í sekt. Þess utan held ég að það sé næsta víst að tekjuaukinn sem af því yrði að þessir ágætu menn mundu láta skrá sig yrði umtalsvert meiri en kostnaðurinn. Ég er til í að leggja ýmislegt undir til að sýna fram á að ég held að ekki þyrfti að banka upp á nema hjá 10 til 20 aðilum — og hægt er að gera það í almennu lögreglueftirliti. Þá er ég viss um að menn mundu flykkjast til að láta skrásetja sig eins og menn gerðu forðum.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að hafa þetta í huga og beina því til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.