143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

atvinnustefna og samráð.

[13:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða atvinnustefnu og samráð við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hann er einnig byggðamálaráðherra. Eins og við vitum hefur sóknaráætlun verið skorin niður við trog og er nánast ekkert eftir af henni. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort haft hafi verið samráð við sveitarfélögin og landshlutasamtökin varðandi þennan niðurskurð og hvort hann hafi reiknað út öll þau störf sem tapist í kjölfarið.

Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Nú hefur komið í ljós að það er fyrst og fremst lögfræðingahópur sem er að vinna að endurskoðun á kerfinu og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það verði það eina sem verður gert, hvort eitthvert pólitískt samráð verði og hvort ólík sjónarmið nái þar í gegn eins og frá þeim hluta þjóðarinnar sem hefur gagnrýnt hvað mest kerfið og vill kerfisbreytingar, hvort tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða í þessari vinnu.

Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra varðandi veiðigjöldin, sem voru ætluð til að fjármagna að stórum hluta fjárfestingaráætlunina og þegar þau voru lækkuð töpuðust mörg störf, hvort það hafi verið greint hve mörg störf töpuðust í kjölfarið.

Síðan vil ég beina þeirri spurningu til ráðherra hvernig hann hyggst bregðast við ef fram fer sem horfir, að skipta eigi rækjukvótanum 70%:30% á milli þeirra sem voru fyrir með hlutdeild og þeirra sem komu nýir inn. Hvernig mun hæstv. ráðherra bregðast við þeirri miklu byggðaröskun og atvinnubresti sem verður í kjölfarið bæði á Ísafirði og Bolungarvík þegar á annað hundrað störf tapast þar?