143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

framlagning lyklafrumvarps.

[14:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Þær snúa að vinnu sem hefur verið í gangi á milli innanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins og lýtur að því að útfæra þær tillögur er fram koma í tillögu hæstv. forsætisráðherra sem flutt var hér á sumarþingi og samþykkt.

Það er hárrétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að við höfum verið að skoða ákveðnar útfærslur á frumvarpi sem á mannamáli hefur verið kallað lyklafrumvarpið en getur auðvitað falið í sér útfærslur sem ekki eru allar nákvæmlega eins.

Ég þekki ágætlega rökin sem hv. þingmaður fer með og það er hárrétt að flestir þeir lögmenn sem innanríkisráðuneytið hefur leitað til og þeir sem hafa helst verið í ráðgefandi hlutverki þar telja mjög erfitt að flytja slíkt frumvarp sem felur í sér afturvirkni. Það er talið stangast á við ákveðna hluti og flækir málið. Við erum hins vegar ekki komin að lokaniðurstöðu hvað þetta varðar, ég og hæstv. félagsmálaráðherra, en munum afhenda sérstakri ráðherranefnd um skuldamál heimilanna niðurstöðu okkar í næstu eða þarnæstu viku. Þangað til get ég ekki tjáð mig frekar um inntak þess frumvarps sem hv. þingmaður vísar til.