143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

framlagning lyklafrumvarps.

[14:02]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka þessi greinargóðu svör. Ég vil bara leggja áherslu á þetta.

Það gleður mig að heyra að kannski séu tvær vikur í það að þessi hópur geti skilað af sér vegna þess að það er auðheyrt að fólk hefur hlustað eftir þessu. Ég þekki dæmi þess að sagt var við ungt fólk að fram kæmi lyklafrumvarp alveg á næstu vikum þannig að nú skyldi það bara anda rólega.

Ef svokallað lyklafrumvarp kemur fram og virkar ekki fyrir fólk sem núna er í kröggum þá þarf það að koma fram fyrr en seinna. Það er bara það sem ég er að segja þannig að fólk haldi ekki áfram að vera í óvissu, hún er búin að vera nógu lengi.