143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[14:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að allir þingmenn séu að reyna að vinna fyrir heimilin í landinu. Okkur greinir greinilega á um hvort það sé skynsamlegra að nota 5 milljarða að þessu sinni til nauðsynlegrar uppbyggingar á innviðum samfélagsins fyrir heimilin eða auka ráðstöfunartekjur um mjög lága prósentutölu. Ég held að ef við förum ekki í nauðsynleg uppbyggingarverkefni muni sú þörf einfaldlega vaxa og að við verðum í verri málum í framtíðinni.

Það er verið að fara í ákveðnar breytingar á mörgum prósentutölum varðandi tryggingagjald sem leiðir meðal annars til þess að peningur er í raun færður úr Fæðingarorlofssjóði og hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í tryggingagjaldinu er lækkuð um helming. Á sama tíma er talað eins og lækkun á virðisaukaskatti á bleium, sem vissulega er ágætt mál, sé brýnasta málið fyrir barnafólk en það skýtur skökku við að á sama tíma er farið í svona stórbrotna (Forseti hringir.) skerðingu á Fæðingarorlofssjóði, tekjutryggingagjaldinu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur verið haft samráð um þetta við aðila vinnumarkaðarins og felur þetta ekki í sér stórbrotna (Forseti hringir.) stefnubreytingu í málefnum Fæðingarorlofssjóðs?