143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[14:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef einhver er með útúrsnúninga í þessari umræðu er það augljóslega hæstv. fjármálaráðherra því að staðreynd málsins var afhjúpuð hér af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Áherslurnar í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins eru áherslur um að hygla þeim mest sem mest hafa, líka í tekjuskattsbreytingunum.

Auðvitað er það gríðarlegt fagnaðarefni fyrir okkur öll ef það er núna komið svigrúm eftir erfiðar ákvarðanir mörg ár í röð í ríkisfjármálum til þess að lækka skatta. En að þeir séu þá lækkaðir sérstaklega á milliþrepinu en sneitt hjá þeim 15% skattgreiðenda sem eru í lægsta þrepinu lýsir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og því að það eru ekki þeir sem verst eru settir eða lökust kjörin hafa sem eiga að njóta forgangs nú þegar svigrúm er að skapast til kjarabóta. Þannig njótum við alþingismenn miklu hærri skattalækkunar en fólk á meðallaunum í samfélaginu, að maður ekki tali um þá sem eru á hinum lægri launum í þúsundum króna talið.

Maður hlýtur að spyrja hæstv. fjármálaráðherra líka hvort ekki hafi komið til álita af hans hálfu að hækka einfaldlega persónuafsláttinn sem sannarlega frá því að staðgreiðslukerfinu var komið á hefur dregist aftur úr miðað við það sem upp var lagt með í byrjun. Hefði ekki verið sanngjarnast að þessum 5 milljörðum væri í krónutölu skipt jafnt á milli landsmanna en ekki að við sem hæst höfum launin fengjum mestu skattalækkanirnar í þessari umferð? Eða er þetta bara svona hörð hægri forgangsröðun í pólitík þar sem þeir sem mest hafa skuli fá mest?