143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[14:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þannig að um 80% launþeganna í landinu greiða tekjuskatt í miðþrepinu. Það er þá sem sagt fólkið sem nýtur hinna sérstöku forréttinda samkvæmt þessum útskýringum hv. þingmanns. En það er ekki hægt að horfa fram hjá því sem ég er alltaf að benda á að þeir sem lægstar tekjurnar hafa og borga af launum sínum tekjuskatt í lægsta þrepinu borga lægsta hlutfallið af laununum. Það er ekki verið að breyta því, því kerfi er viðhaldið að þessu sinni. Það skatthlutfall er lægra en almenni skatturinn var áður. Það er 22,9% en var 23,5% áður. Þetta ásamt með öðru því sem ég hef hér rakið er augljós forgangsröðun sem sýnir að verið er að verja kjör þeirra sem verst eru settir.

Varðandi sjúklingagjöld og skráningargjöld þá eru skráningargjöldin bara (Forseti hringir.) skráningargjöld og eiga að endurspegla kostnað skólanna af innritun. Sjúklingagjöld er víða að finna og er miklu stærri umræða sem ágætt væri að taka hérna við tækifæri.