143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[14:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargerð hans fyrir þessu frumvarpi og í fyrri viku fyrir fjárlagafrumvarpinu sjálfu. Það er mikið gleðiefni ef við höfum komist á þann stað í þróun ríkisfjármála eftir hrun að viðsnúningnum sé náð, að allar þær erfiðu ákvarðanir um skattahækkanir og niðurskurð, sem menn hafa þurft að taka í þessum sal á síðustu fjórum árum, hafi skref fyrir skref skilað þeim árangri að yfir 200 milljarða halla á ríkissjóði hefur verið snúið við og fyrst í hittiðfyrra náð frumjöfnuði í fjárlagagerðinni og síðan núna heildarjöfnuði.

En umfjöllunin um frumvarpið er hins vegar á þann veg að maður hlýtur að spyrja í upphafi um fyrirætlanir stjórnvalda og um það hvort frumvörpin sem við ræðum hér séu studd af stjórnarmeirihlutanum. Það hefur mátt skilja málflutning, einkanlega framsóknarmanna, í umræðum um fjárlögin þannig að frumvarpið væri einhvers konar umræðugrundvöllur sem þingið gæti breytt í miklum og stórum atriðum. Þá hlýtur maður að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvort það sé réttur skilningur að þetta sé einhvers konar tillaga hans til þingsins og þess megi vænta að það taki mjög miklum breytingum í meðförum eða hvort því hafi verið þannig háttað, eins og venja er til, að stjórnarmeirihlutanum hafi verið kynnt öll meginatriði frumvarpsins og báðir þingflokkar stjórnarflokkanna samþykkt í meginatriðum frumvarpið í heild sinni og standi á bak við það sem hér er.

Mér hefur virst í umræðunni að ýmsir stjórnarliðar hafi kannski viljað hlaupa frá þeim óvinsælli ákvörðunum sem hæstv. fjármálaráðherra kynnir í þessu frumvarpi. Og eins spyr ég hvort stjórnarmeirihlutinn hafi markað þá stefnu að jöfnuðurinn sem kynntur er við framlagningu frumvarpsins við 1. umr. skuli halda í gegnum meðferðina hér í þinginu þannig að endanlegt frumvarp, sem afgreitt verður hér í desember, verði réttum megin við núllið og þær breytingar sem stjórnarmeirihlutinn í þinginu kann að gera á frumvarpinu eins og það hefur komið fram séu skorðaðar við það að eftir sem áður verði afgangur á fjárlögunum.

Ég tel mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra skýri þetta, annars vegar hvort stjórnarmeirihlutinn stendur heill og óskiptur að baki frumvarpinu í öllum meginatriðum og hins vegar hvort stjórnarmeirihlutinn hafi sett sér það markmið að við lokaafgreiðslu frumvarpsins við 3. umr. verði enn til staðar afgangur af heildarafkomunni.

Ástæða er til að hafa töluverðar áhyggjur af tekjuhlið frumvarpsins. Það er ýmislegt í henni sem virðist því miður vera byggt á nokkuð veikum grunni og sumt sannarlega bara bókhaldstrix. 10 milljarðar koma þannig inn í fjárlagafrumvarpið úr hreinu bókhaldstrixi þar sem hæstv. fjármálaráðherra borgar bara Seðlabankanum 10 milljörðum minna en ætlað var. Það er ekki árangur í rekstri ríkissjóðs. Það eru bara tölur á blaði, bókhaldsbrella þar sem fært er úr einum vasa ríkisins í annan og hefur ekkert að segja um raunverulegan rekstrarárangur ríkisins, í raun hefðum við þurft að hafa 10 milljörðum betri afkomu sem því nemur þar.

Í öðru lagi er ástæða til að hafa áhyggjur af forsendunum á næsta ári um hagvöxt í landinu og ýmsar stórframkvæmdir. Ég hygg að ég fari rétt með, og ég óska eftir að hæstv. fjármálaráðherra staðfesti það, að hluti af forsendum fjárlagafrumvarpsins sé að framkvæmdir hefjist í Helguvík á næsta ári. Þá er ástæða til að spyrja ráðherrann hvort hann telji á þessum tímapunkti, svo seint á þessu ári, að það séu raunsæjar forsendur fyrir frumvarpinu í ljósi þeirrar stöðu sem er uppi á mörkuðum eða hvort ráðherrann hafi einhverjar nýjar upplýsingar að flytja okkur um þetta efni. Þó að hér hafi náðst ágætur hagvöxtur á síðasta kjörtímabili, í framhaldi af hruninu, raunar þannig að hæstv. forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur nýlega lýst því sem einhverjum mesta hagvexti í Evrópu — þó að sá vöxtur hafi meira að segja verið góður framan af þessu ári bendir ýmislegt til þess að heldur sé að draga úr vextinum. Meðal annars hefur ríkisstjórnin sannarlega ekki verið hjálpleg við að knýja hér áfram hjól atvinnulífsins og örva vöxt og viðgang í efnahagsstarfseminni.

Ríkisstjórnin hefur skapað ótvíræða óvissu um stór atriði í íslenskum efnahagsmálum með því að setja á dagskrá síðar í vetur tillögur sem virðast vera algerlega óútfærðar og hæstv. fjármálaráðherra kallar vangaveltur núna í októbermánuði þegar aðeins mánuður er þar til þær eiga að koma fram. Þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar með öðru hafa leitt til þess að lánshæfismat Íslands, meðal annars hjá einu lánshæfismatsfyrirtækjanna, hefur lækkað og þar með dregið úr líkum á því að við getum fengið hingað fé til fjárfestingar, hvort sem er innlendir eða erlendir aðilar, á þeim kjörum sem við þurfum til að fjárfestingar séu hér nægilega arðbærar til að unnt sé að ráðast í þær. Sömuleiðis eru auðvitað ýmsar aðrar aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til.

Ástæða er til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort 2,7% spáin um hagvöxt fyrir næsta ár, sem byggt var á við gerð frumvarpsins og tekjukaflans sem hann mælir hér fyrir — hvort hann hafi kannað hvort sú spá sem von er á í nóvember verði á svipuðum slóðum um vöxt í efnahagsstarfseminni eða hvort hann vænti þess svona heldur að þar gæti dregið úr bjartsýni manna um vöxt á næsta ári eftir ríkisstjórnarskiptin sem orðið hafa í landinu og hvaða áhrif það hefði þá á tekjuöflunina í frumvarpinu.

Ég vil sérstaklega nota tækifærið og fagna því ef sú leið reynist vera fær að leggja nýjan skatt á þrotabú hinna föllnu banka. Það er sannarlega ástæða til að nýta slíka leið ef hún er fyrir hendi. Ég minni á að við umfjöllun um bankaskattinn lagði Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að hann væri annars vegar ívið of hár en hins vegar að ekki mætti nota tekjurnar af slíkum skatti í rekstur ríkissjóðs heldur væri réttast að setja hann í sérstakan sjóð til að mæta áföllum. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra, af því að ég man að þessi sjónarmið komu sérstaklega fram hjá honum sjálfum, þó hann væri ekki nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd á þeim tíma, hvað hafi orðið um þau áform eða þau sjónarmið vegna þess að það sem verið er að gera hér er að verið er að nota þennan tímabundna skatt, liðlega 10 milljarða, í reksturinn sjálfan. Það er enn einn veikleikinn í tekjugrunni frumvarpsins sem maður hefur áhyggjur af að aðeins er gert ráð fyrir þeim tekjum í tvö ár.

Í sjálfu sér vitum við ekki hvenær leysist úr búunum og raunar hafði ég skilið yfirlýsingar Framsóknarflokksins þannig að nota ætti svigrúmið sem fengist frá kröfuhöfunum, peningana sem fengjust úr þrotabúunum, til að mæta stöðu skuldara í landinu en ekki til að greiða inn í rekstur ríkissjóðs. En þessi áform kunna að hafa breyst frá því að stjórnarsáttmálinn var gerður og var kynntur á Laugarvatni snemmsumars. Það væri þá ágætt að vita hvort ætlunin sé að nota svigrúmið í ríkissjóð og hvort horfið hafi verið frá þeim fyrirætlunum um að nota það svigrúm sem hægt er að fá frá kröfuhöfunum í málefni skuldugra heimila.

Þetta væri kannski ekki áhyggjuefni í sjálfu sér, það að skatturinn á þrotabúin virðist aðeins eiga að skila sér í tvö ár, ef það kæmi ekki saman með mörgu öðru. Enn einir 10 milljarðar í þessu frumvarpi hanga á því að á næsta ári fást áfram tekjur af auðlegðarskatti en ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún hyggist hverfa frá honum eða framlengja ekki öllu heldur þó svo gjaldeyrishöftin hafi verið framlengd. Það virðist þess vegna vera að innan tiltölulega skamms tíma sé hvert 10 milljarða gatið á fætur öðru sem við verði að fást. Ástæða er til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um þær efasemdir sem komið hafa fram, meðal annars opinberlega, um að unnt verði fyrir þrotabúin að komast með einhverjum hætti hjá þessari nýju skattlagningu. Sömuleiðis þau sjónarmið sem ein slitastjórnin hefur lýst yfir að slitastjórnirnar og þrotabúin falli ekki undir lögin því að fjármálafyrirtæki í slitameðferð séu ekki fjármálafyrirtæki og falli því ekki undir skattinn og geti ekki gert það.

Ástæða þess að ég spyr um þetta er sú að það er gríðarlega mikilvægt að þessi skattheimta haldi. Sú leið sem við fórum á síðasta kjörtímabili var að skattleggja eignir þrotabúanna, þ.e. innleiða bankaskattinn sem lagðist á bankana sem þrotabúin eiga. Þrotabúin greiddu þannig með óbeinum hætti en var sannarlega lögleg aðferð þannig að ef einhver óvissa var uppi um lögmæti þess að skattleggja þrotabúin beint þá hvet ég til þess að menn skoði þá leið að auka einfaldlega skattlagninguna á fjármálafyrirtækin sem eru starfandi því að að svo stórum hluta eru þau auðvitað í eigu þrotabúanna og þrotabúin greiða með óbeinum hætti þá skatta.

Meginathugasemdirnar hljóta þó jafnaðarmenn að hafa við frumvarpið þegar kemur að því að þessar miklu áherslubreytingar í skattamálum líta dagsins ljós. Þegar Framsóknarflokkurinn fer með Sjálfstæðisflokknum alla leiðina til hægri — þegar á liðnu kjörtímabili var innleitt þrepaskipt skattkerfi til að skapa tækifæri til að láta sem minnst af skattbyrðinni lenda á þeim sem lægstar hafa tekjurnar, láta þá sem meiri hafa tekjurnar og þá sem mestar eiga eignirnar bera talsverðar byrðar á þessum erfiðu tímum, þá er í senn ákveðið að falla frá sköttum á útgerðina, eins og við höfum út af fyrir sig margrætt og er sérstakt umfjöllunarefni í þessu þingmáli, á efnafólk í landinu, eins og um er að ræða í auðlegðarskattinum, en síðan er líka ákveðið að hækka skólagjöld aftur sem nýbúið er að hækka, voru hækkuð 2012, til að skapa nokkur hundruð milljóna króna tekjur, með sérstökum skólaskatti, og innleiða gjöld á inniliggjandi sjúklinga, sem aldrei hafa verið skattlagðir á Íslandi, til að ná enn nokkur hundruð milljónum á sama tíma og menn treysta sér til að fara í umtalsverðar skattalækkanir á millitekjuhópana sem er út af fyrir sig ákaflega jákvætt.

En maður hlýtur að setja spurningarmerki við það hvers vegna gera eigi það prósentvís, hvers vegna við alþingismenn, svo að dæmi sé tekið, sem erum með tekjur umtalsvert yfir meðaltekjum í landinu og verulega yfir lægstu launum — af hverju við eigum að fá í krónum talið miklu meiri skattalækkun, nú loksins þegar farið er að rofa til, en fólk sem er með meðaltekjur eða lægri tekjur. Er því ekki einmitt þveröfugt farið að það sé heldur það fólk sem eigi fyrst að njóta svigrúmsins, það fólk sem býr við lægri tekjur og meðaltekjur, að við ættum kannski fyrst að ákveða að hlífa skólakrökkunum við frekari gjaldahækkunum en þurfti að fara í á árunum eftir hrun og spítalasjúklingunum og skoða kannski leiðir eins og þær að lækka skatthlutfallið í neðsta þrepi sem nær þá til allra eða að hækka einfaldlega persónuafsláttinn þannig að allir Íslendingar fái sömu krónutölu í skattalækkun þegar svigrúmið er farið að skapast? Er það ekki sanngjarnari málsmeðferð? Sannarlega út frá sjónarmiði okkar jafnaðarmanna og okkar í Samfylkingunni, það eru áherslur í skattamálunum sem við mundum miklu frekar horfa til um leið og við fögnum því enn og aftur ef við höfum svigrúm til þess loksins eftir mörg ár, í erfiðum niðurskurði og skattahækkunum, að snúa taflinu við og fara að létta aftur sköttum og gjöldum af almenningi.