143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[15:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki ástæða til annars en að taka undir með hæstv. fjármálaráðherra þegar hann talar um mikilvægi þess að reka ríkissjóð hallalausan. Það er ánægjulegt að fá hér tekin af öll tvímæli um það að stjórnarmeirihlutinn standi að baki þessu frumvarpi. Það hefur virst mega skilja það af umræðunni undanfarið að Framsóknarflokkurinn sé með einhverjum hætti ábyrgðarlaus af erfiðari tillögunum sem í þessu frumvarpi eru, eins og sjúklingasköttum og sköttum á skólafólk og annað slíkt.

Mestar áhyggjur hljótum við auðvitað að hafa af því að hér er verið að búa til tekjur með bókhaldstrixum eins og 10 milljörðunum í Seðlabankanum og með því að láta auðlegðarskattinn hanga enn þá inni með aðra 10 milljarða. Tryggingagjaldið er auðvitað þriðji þátturinn sem ég gleymdi að nefna í ræðu minni, sem sannarlega er ástæða til að hafa áhyggjur af að haldi ekki.

Maður hlýtur að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í áhrif kjarasamninga, mögulega á milli umræðna, hvort þeir séu ekki líka þáttur sem eigi eftir að koma inn í þingið til meðhöndlunar og hvort þeir séu líklegri en ekki til þess að þýða útgjöld fremur en tekjur ef ná á friði á vinnumarkaði og tryggja breiða samstöðu um einhverja þjóðarsátt um sókn til betri lífskjara á næstu árum.