143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[15:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst aðeins varðandi bankaskattinn og það að hér sé mælt fyrir um að hann verði forgangskrafa. Það reynir í sjálfu sér ekkert á það nema að koma þurfi til úthlutunar úr þrotabúinu til forgangskröfuhafa. Skatturinn er hugsaður þannig að hann leggist á um áramót og verði bara greiddur af búinu meðan það er í slitum, svipað eins og slitastjórnin sjálf fær til sín greiðslur meðan hún er að vinna í þágu búsins, þá fái skatturinn það sem á hefur verið lagt á búið á meðan það er í slitum. Þetta vildi ég hafa sagt um bankaskattinn og hef ekki miklar áhyggjur af þessu þó að ég treysti því að nefndin muni fara mjög vandlega yfir allar athugasemdir sem fram hafa komið vegna hans.

Aðeins um þá sem lægst kjörin hafa. Ég ætla alls ekki að halda öðru fram en að síðasta ríkisstjórn hafi sérstaklega viljað halda hlífiskildi yfir þeim sem lægst kjörin hafa. Það gerðu menn sannarlega með margvíslegum aðgerðum. En eitt var þó ekki til þess fallið að hlífa þeim sem verst kjörin höfðu, það var þegar menn ákváðu þegar verðbólgan var mest að slíta tengslin við vísitöluna í persónuafslættinum. Það var markviss aðgerð sérstaklega gerð til að hlífa ríkissjóði. Þegar hún er tekin með í reikninginn dugði ekki lækkunin á tekjuskattsprósentunni til að vinna upp tapið sem menn urðu fyrir vegna þess að menn hættu að verðtryggja persónuafsláttinn tímabundið. Þetta finnst mér mikilvægt að sé tekið með.

Þegar nefndar eru skattprósentutölur eins og hv. þingmaður gerði um 47% í efsta þrepi, ef miðað er við meðalútsvar, verður að hafa með að þar eru menn ekki með lífeyrisgreiðslurnar inni. Þegar við tökum með í reikninginn að við erum með sjóðsöfnun með lífeyrisgreiðslum, þegar lífeyrisgreiðslurnar eru teknar með, er niðurstaðan sú að skattar á Íslandi eru einhverjir þeir hæstu á einstaklinga sem lagðir eru á alls staðar innan OECD. Þetta hafa Samtök atvinnulífsins dregið ágætlega fram. Þeir sem vilja nota Norðurlöndin alltaf til viðmiðunar (Forseti hringir.) eru þá að nota til viðmiðunar þau ríki sem hæsta hafa skattana.