143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[15:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki gefið einhlítt svar við því. Ég held að enginn, nema þá dómstólar ef út í slíkt kæmi, geti sagt hvenær skattlagning væri orðin svo óheyrileg að það væri hægt að vinna slíkt mál fyrir dómstólum á grundvelli þess að það væri bara hrein og klár og alger eignaupptaka.

Fólk á oft í erfiðleikum með að borga skatta sína þó að það séu ekki eignarskattar eða stóreignarskattar. Það getur verið af ýmsum ástæðum, tekjubrestur eða annað getur leitt til þess að menn lenda í miklum vandræðum með að borga skatta, verða kannski að selja bílinn sinn til að borga skatt eða vangoldin meðlög eða hvað það er. Er það þá eignaupptaka af því að þeir þurftu að láta bílinn? Nei, auðvitað ekki.

Það á að nálgast þetta úr hinni áttinni. Ef skattstofninn er skýr, andlagið er skýrt, gætt eðlilegra sjónarmiða í sambandi við álagninguna, hún rökstudd, hún er almenns eðlis, allir sæta sömu meðferð og skatturinn er lagður á með skýrum lögum frá Alþingi, þarf mjög mikið til að vefengja að löggjafinn hafi það vald að leggja slíkan skatt á. Ég tel alveg fráleitt að viðra áhyggjur af að þetta sé tæpt gagnvart stjórnarskránni vegna þess að þetta gæti flokkast sem einhver eignaupptaka. Mér finnst sérstaklega ónotalegt ef það kemur úr þeirri átt sem á núna að standa í okkar málsvörn fyrir því að þessi skattur sé í lagi.

Þessar tekjur undanfarin þrjú ár hafa heldur betur komið sér vel og hvað ætli bjargi nú hæstv. fjármálaráðherra á næsta ári annað en það að hann fær 9,4 milljarða í eftirágreiddan auðlegðarskatt í kassann 2014? Hvað mundi hæstv. ráðherra gera ef hann hefði ekki þær tekjur? Það virðist samt nógu erfitt að skrúfa þetta saman. Væri þá 9,4 milljarða halli á ríkissjóði? Ekki virðist viljinn vera mikill hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn að heyja einhvers staðar, hún ætlar bara að láta allt spretta úr sér. Þetta bjargar núna. Ætlar ríkisstjórnin þá að taka við þessu með óbragð í munni vegna þess að hún telji þetta hálfpartinn ólöglegt? (Forseti hringir.) Ég bið menn að vera ekki að tala svona.