143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[16:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var enginn skortur á því að velt væri upp spurningum í ræðu hv. þingmanns og ekki verður öllu svarað hér í stuttu andsvari, en mig langar til þess að staldra við nokkur atriði.

Það er sérstaklega minnst á að skilmálabreyting á skuldabréfi milli ríkisins og Seðlabankans sé einhvers konar bókhaldsbrella. Sama hefur komið fram hjá öðrum þingmönnum í umræðunni. Svo er að sjálfsögðu alls ekki og því hefur aldrei verið haldið fram í umræðunni að ef menn vildu líta á Seðlabankann og ríkissjóð saman sem uppgjörseiningu væri afkoman að batna sérstaklega. Það hefur hins vegar verið bent á að frá því að skuldabréfið var gefið út hefur ríkið greitt í vexti og verðbætur um 70 milljarða til Seðlabankans. Seðlabankinn býr nú við eigið fé upp á í kringum 100 milljarða og hefur verið að skila góðri afkomu undanfarin ár, yfir 10 milljarða í afgang upp í 14 milljarða í afgang. Á þeim tímum sem ríkissjóður er í miklum erfiðleikum við að ná endum saman er ekki nema eðlilegt að spurt sé hvort eitthvert vit sé í þessum fjárhagslegu samskiptum ríkissjóðs og Seðlabankans ef það er þannig að Seðlabankinn njóti svo góðs af útgefnu skuldabréfi að hann sé rekinn með afgangi upp á annan tug milljarða algerlega að þarflausu í sjálfu sér, enda eiginfjárstaðan í íslenskum krónum, að því er virðist, vel ásættanleg og jafnvel rúmlega það. En að ríkissjóður eigi síðan að vera upp á einhvers konar arðgreiðslufyrirkomulag kominn varðandi framtíðina, það er einfaldlega eðlilegt að breyta því. Frá því verður gengið í góðu samráði við Seðlabankann áður en áramótin renna upp, en þá rennur núverandi skuldabréf út.