143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[16:12]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frekar var það rýrt að svara einungis þessari einu spurningu, en hún er auðvitað mjög mikilvæg. Mig langar í framhaldinu til að vita þar sem hér stendur, eins og ég las upp áðan, að tekjur Seðlabankans hljóti að minnka sem þessu nemur og þar af leiðandi tekjur ríkisins á móti, þ.e. vegna arðgreiðslnanna: Veit hæstv. ráðherra hver munurinn er, þ.e. ef við héldum því fyrirkomulagi áfram? Það er auðvitað sjálfsagt að endurskoða slík bréf á hverjum tíma, en liggur fyrir hverjar arðgreiðslurnar gætu verið annars vegar og svo þeir 10 milljarðar sem hér er lagt til að verði?

Ég ætla að ítreka fyrri spurningar mínar og vona að hæstv. ráðherra hafi náð einhverju af þeim og svari mér í síðara andsvari sínu. Mér þykir þetta með lágmarksútsvarið ekki minna mikilvægt, hvort breyta eigi fyrirkomulagi varðandi innheimtu útsvarsins, þ.e. að sveitarfélögin fái sitt en ríkið taki á sig afskriftirnar. Getur hann vitnað í einhverjar tilteknar rannsóknir er varða fullyrðingarnar sem koma fram í frumvarpinu um einföldun skattkerfisins og innleiðingu jákvæðra hvata? Og svo það sem ég spurði um varðandi byggðamálin öllsömul, eins og t.d. Brothættar byggðir og niðurskurðinn til Byggðastofnunar. Síðan er það húshitunin, hvernig dreifbýlisstyrkur kemur við hvern og einn námsmann, hvort hann telji ástæðu til að innanlandsflugið, að þeir styrkir verði endurskoðaðir þegar lítil sveitarfélög reiða sig algjörlega á þá þjónustu. Og svo hvort þetta sé rétti tíminn til að krefja Vegagerðina um rúmlega milljarð til baka af mörkuðum tekjum.