143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[16:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Almennt varðandi skattkerfið og skattkerfisbreytingar eru til heilmikil vísindi og miklar rannsóknir sem sýna að það geta verið mjög miklir jákvæðir hvatar í því fólgnir að hafa skattkerfið sem einfaldast og skilvirkast en ekki síður að breyta því sem minnst, a.m.k. að það liggi fyrir einhver stefna þannig að atvinnulífið geti tekið ákvarðanir sem hafa áhrif til lengri tíma á grundvelli þess hvernig útlitið er í skattamálum næstu árin. Ég get vísað til þess sem OECD hefur tekið saman um þau efni og margir aðrir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fleiri.

Varðandi lágmarksútsvarið er hugsunin þar fyrst og fremst sú að engin sérstök ástæða sé til þess að hafa lágmarksútsvar, en eftir sem áður stendur sú skylda upp á sveitarfélögin að innheimta tekjur sem eru í samræmi við þær skyldur sem hvíla á sveitarfélögunum. Eins og allir vita eru sveitarfélög með sameiginlegt lágmarksútsvar en eru innbyrðis alveg gríðarlega ólík, frá því að vera mjög fámenn yfir í að vera sjálf höfuðborgin.

Það er ekki neitt til skoðunar að þessu sinni, svo mér sé kunnugt um, sem tengist breytingum á útsvarinu eða hvað því viðvíkur að ríkið sitji uppi með tjónið vegna skatta sem ekki innheimtast, enda verða allar breytingar á fjárhagslegum samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna að eiga sér eðlilegan aðdraganda. En það er hins vegar gert ráð fyrir því í nýju frumvarpi til laga um opinber fjármál að gert verði sérstakt samkomulag um þau efni á mun víðtækari grundvelli en nú gildir.

Um stuðning við byggðirnar verð ég bara að segja að sóknaráætlanirnar voru illa fjármagnaðar og algjörlega óraunhæft (Forseti hringir.) að fara með þann stuðning á grundvelli þeirra upp í 1,2 milljarða, eins og til stóð að gera á næsta ári.