143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[16:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það voru nokkur atriði sem ég hafði ætlað mér að koma að en vannst ekki tími til í byrjun. Til að koma því að núna vil ég fyrst aðeins segja um bankaskattinn og samhengi hans við skiptaréttinn að samkvæmt bráðabirgðaákvæði sem er hnýtt hér aftan í lögin um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki á að gera skattkröfuna jafn réttháa í skiptum þeim sem um er fjallað í 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Ákvæðin um slit fjármálafyrirtækja vísa yfir í lögin um gjaldþrotaskipti eftir því sem við á. Með öðrum orðum á að gera skattkröfuna jafnsetta launum og endurgjaldi fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns eða bús sem hefur fallið í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag.

Ég ætla ekki að segja að þetta sé galin hugmynd en hún sýnir í hnotskurn að vissu leyti vandann sem hér er á ferð. Það verður einhvern veginn að búa um það hvaða stöðu skattkrafan hefur gagnvart öðrum kröfum á búið. Hér er ein tillaga sem setur hana auðvitað mjög framarlega, næsta á eftir því sem um er fjallað í 109.–111. gr. sem er bara það ef eignir eru beinlínis í vörslu bús sem einhver annar á og getur sannað eignarrétt sinn á. Þá á hann auðvitað að afhenda þeim manni eignina, veðbandalausa eign sem er einhvern veginn hjá búinu. Ef þarf að greiða kostnað af útför þess látna sem er í skiptum á það að koma á undan launakröfum o.s.frv.

Skattkrafan á að koma hérna og verða jafnsett 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. Þetta er örugglega eitt af því sem menn eiga eftir að velta dálítið fyrir sér, þ.e. hvar hún á nákvæmlega að koma inn í röðina í skilningi skiptaréttarins.

Að öðru leyti ætlaði ég að víkja að stóru myndinni í þessu. Hér er á ferðinni tekjuöflunarbandormur hæstv. ráðherra, hæstv. ríkisstjórnar, sem með réttu ætti að teikna til einhverrar framtíðar í tekjuöflun ríkisins í samhengi við ríkisfjármálaáætlun. Með öðrum orðum ætti hæstv. ráðherra til dæmis að leggja í þessu frumvarpi til framlengingu á auðlegðarskattinum ef það stæði til, það ætti hvergi annars staðar betur heima. En það er ekki gert. Ég verð að segja alveg eins og er að ég undrast það að menn skuli telja sig miðað við málflutninginn — nú hefur talsvert farið fyrir því að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafi borið sig frekar aumlega yfir því hvað þetta sé þungt og erfitt og aðkoman verri en þeir áttu von á. Þeir höfðu slíka tröllatrú á fyrri ríkisstjórn að þeir héldu að þeir mundu bara labba á rósabeðum í Stjórnarráðið og þetta yrði allt í fína lagi. Nei, þetta reynist erfitt sem allir máttu segja sér sem búið hafa á Íslandi undanfarin fimm ár.

Er það þá þannig að við höfum ráð á því og er það forgangsverkefni að fella auðlegðarskattinn niður á einu bretti sem á að skila þó 9,4 milljörðum í kassann hjá hæstv. ráðherra á næsta ári? Ég hefði fullkomlega skilið það að ríkisstjórnin hefði talið sig út frá kosningaloforðum og öðru slíka verða að sýna einhvern lit í þeim efnum og hún hefði eitthvað endurskoðað auðlegðarskattinn. Það viðurkenndum við að kæmi alveg til greina og mætti hugsa sér það. Það mætti gera með því að laga eitthvað prósentur. Það mætti gera hugsanlega með því að gera greinarmun á tekjuberandi eignum og öðrum sem ekki eru tekjuberandi. Það flækir málið aðeins en það væri hægt.

Menn hafa kannski áhyggjur af því að í einhverjum tilvikum sé fólk að borga auðlegðarskatt vegna þess að það á stóra og mikla skuldlausa eign sem það hefur ekki tekjur af. Gott og vel, menn geta haft skilning á því sjónarmiði og þá er hægt að hafa undanþægar reglur sem að einhverju leyti koma til móts við slíkt. En það er ekki gert, heldur er auðlegðarskatturinn lagður niður á einu bretti. Það á ekki að framlengja eitt eða neitt. Hefði ekki verið gott að ná kannski 5 milljörðum eða 7 milljörðum 2015 svo þetta yrði ekki alveg svona erfitt fyrir hæstv. ráðherra? Mestu vonbrigðin í tengslum við öll þessi mál, fjárlagafrumvarpið, litla heftið hér, þetta frumvarp og annað sem með því fylgir, eru auðvitað horfurnar til næstu þriggja, fjögurra ára. Það eru stóru vonbrigðin.

Af hverju versnar meira að segja afkoman milli áranna 2015 og 2016? Vegna þess að þá eru þornaðir upp fjölmargir tekjustofnar sem ýmist fyrri ríkisstjórn skaut undir ríkið eða núverandi ríkisstjórn ætlar tímabundið að taka upp, eins og bankaskattur? Árið 2016 verða mun lægri veiðigjöld. Það verður ekki hærri virðisaukaskattur á hótelgistingu. Það verður enginn auðlegðarskattur. Það verður enginn orkuskattur og það verður aftur enginn bankaskattur miðað við áform ríkisstjórnarinnar sjálfrar. (Forseti hringir.)

Ég öfunda ekki þann hæstv. fjármálaráðherra, hvort sem það verður núverandi eða einhver annar, sem ætti við óbreyttar aðstæður að reyna að hnoða saman fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016.