143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[16:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur verið mjög mikið í umræðunni, ekki bara hér heima heldur á alþjóðlegum vettvangi, hvernig megi auka skattheimtu af efnameira fólki. Það er þó einkennandi fyrir umræðuna í öðrum löndum að menn eru fyrst og fremst að horfa á tekjuhliðina, hvernig menn geta tekið hærri skatta af tekjum, fjármagnstekjum, launatekjum o.s.frv. Það er vegna þess að menn eru almennt búnir að átta sig á því að eignirnar eru ekki góður skattstofn til langs tíma, þær hafa tilhneigingu til að flytjast milli skattsvæða ef þær eru of skattlagðar. Við höfum séð dæmi þess í íslenskri skattframkvæmd á undanförnum árum.

Mig langar aðeins að fara nánar út í bankaskattinn og það að hann sé forgangskrafa. Á meðan fjármálafyrirtæki er í slitameðferð fellur sá skattur einfaldlega á fjármálafyrirtæki í slitameðferð og er gjaldskyldur sem slíkur. Það reynir ekkert á það á meðan slitin eru enn þá opin hvort hann verður á endanum forgangskrafa til úthlutunar úr búinu. Hann verður einfaldlega greiddur eins og aðrar kröfur og skyldur sem búið hefur á meðan það er starfrækt og verður vonandi ekki í neinum vanskilum þegar búið er á endanum gert upp. Það getur auðvitað komið til þess að menn annaðhvort ná ekki samningum eða eru af öðrum ástæðum þvingaðar til þess að fara í þrotameðferð.

Varðandi það að stóriðjuskatturinn, skatturinn á raforku til stóriðjunnar, hafi verið tímabundin ráðstöfun fer maður nú að velta því fyrir sér hvort tímabundin ráðstöfun sé orðið eitt af þeim afstæðu hugtökum, teygjanlegu hugtökum, (Gripið fram í: Svipað og strax.) sem nefnd hafa verið í umræðunni. Er það teygjanlegt hugtak, tímabundin ráðstöfun? (Gripið fram í.)Ég held að stóriðjan hafi alveg áreiðanlega skilið það svo að sem tímabundin ráðstöfun mundi skatturinn (Forseti hringir.) falla niður þegar þeim tíma var lokið sem hann var lagður á.