143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[16:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aftur varðandi skattkröfuna í búin. Já, menn geta sagt sem svo að ef búin standa alveg kyrr á heilu ári er skattkrafan meðhöndluð sem kostnaður á því ári og greidd út og allt bíður eins og er. En ef búið er að greiða út og fær að greiða einhvern hluta upp í til dæmis forgangskröfur geri ég ráð fyrir því að slitastjórnirnar vilji vita hvar þær standa í þeim efnum. Það hlýtur að minnsta kosta að vera algerlega kristaltært að skattkrafan verður að standa framar almennum kröfum, ég tala nú ekki um í búi sem ef til vill á ekki nema rétt fyrir forgangskröfunum. Það hlýtur að þurfa að vera alveg ljóst. Ég er því ekki viss um að allar flækjur séu leystar með þessu.

Að sjálfsögðu er það sjónarmið mjög ríkt nú um stundir eftir fjármálakreppuna um heim allan að taka eigi myndarlegan skatt af ofurlaunum. Ég fagna því að hæstv. fjármálaráðherra talar í þá veru.

Eitt það allra galnasta sem menn gerðu í rugli sínu á árunum 2003–2007 var að fella niður hátekjuskattsþrepið. Það var yfirgengilegt. Á sama tíma og ofurlaunin héldu innleið sína felldu menn hátekjuþrepið niður í áföngum. (Gripið fram í.)Ég reiknaði það út að tekjuhæsti maður Íslands árið 2007 borgaði 70 milljónum minna í tekjuskatt vegna þess að ríkisstjórnin hafði verið svo örlát að fella niður hátekjuþrepið.

Þess vegna endurtek ég spurningu mína sem fjármálaráðherra getur kannski svarað í lok umræðunnar: Er hans framtíðarsýn á skattkerfið eitt eða tvö skattþrep? Hvernig á að lesa það sem stendur í greinargerð með frumvarpinu? Ég vil leggja í það þann skilning að menn séu að tala um tvö þrep, að sameina lægsta þrepið og miðþrepið en viðhalda háþrepi. Vonandi er það rétt. Þá er ekki þó verið að tala um að fara alla leið til baka í frjálshyggjuna og fletja þetta út í ekki neitt.