143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[16:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi hið síðasta sem hæstv. ráðherra sagði eru það engin rök þótt skattprósentan hafi verið þannig. Það breytir engu um það að núna er verið að dreifa 5 milljörðum til þeirra sem greiða skatt. Hví í ósköpunum er þá ekkert af því sett til þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu í hópi tekjuskattsgreiðenda? Það er mér fyrirmunað að skilja. Hugsanlega er ég með svo slaka meðalgreind miðað við þá sem hér eru staddir að ég skil ekki rökin. Mér finnst eins og þetta sé tilfinningalegt atriði hjá hæstv. ráðherra, að ekki megi hjálpa þeim í hópi tekjuskattsgreiðenda sem við vitum öll að standa verst í samfélaginu. Ég skil það ekki.

Hvað varðar fjármálafyrirtæki sem eru í slitameðferð ætla ég að spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar til þess að fá það fram: Það er sem sagt ekki fyrirhugað að beita neinum lagabreytingum eða koma fram neinum lagabreytingum til að tryggja að sá skattur verði af höndum inntur?

Síðan ætla ég að nota ferðina af því ég spurði hæstv. ráðherra spurningar í dag um barnaföt. Hæstv. ráðherra sagði að ástæðan fyrir því að menn væru ekki með breytingar á virðisaukaskatti á barnafötum núna væri, eins og hann sagði sjálfur í dag, af því að það væri tæknilega erfitt. Þegar maður les greinargerð frumvarpsins hjá honum kemur í ljós að það hefur ekkert með tækni að gera heldur segja þeir sem skrifa frumvarpið, og hann ber ábyrgð á, að það sé ekki skynsamlegt. Það er töluverður munur á því.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Liggur ástæðan fyrir því að sú lagabreyting er ekki borin fram í því að samstarfsflokkurinn var á móti því? Það mátti skilja á hæstv. ráðherra þegar hann svaraði svinnum (Forseti hringir.) fréttamanni, Helga Seljan, á dögunum í Kastljósi.