143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[16:56]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur verið gott að fylgjast með þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um tekjuöflunarfrumvörpin sem hér eru sett fram. Það er nýtt með breytingu þingskapa sem var mjög til góðs. — Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra þannig að mér þykir slæmt ef hann er genginn úr salnum.

(Forseti (SJS): Hæstv. ráðherra er hér í hliðarsal.)

Það er til mikilla bóta á starfsháttum Alþingis að við skulum vera að ræða hér tekjuöflunarfrumvörpin samhliða framlagningu fjárlaga. Rétt er að hafa í huga að það var breyting á þingsköpum, sem alþingismenn gerðu, sem gerði þetta að verkum. Það er ekki þannig, eins og mér skilst að fram hafi komið í ræðu eins stjórnarþingmanns, að ríkisstjórnin, eða fjármálaráðherra sérstaklega, hafi ákveðið að gera þetta á þennan hátt að þessu sinni. Þannig að því sé haldið til haga.

Þá er líka vert að halda því til haga að fyrir mars- eða apríllok á næsta ári mun fjármálaráðherra þurfa að koma með þingsályktunartillögu um helstu stærðir í væntanlegu fjárlagafrumvarpi fyrir árið þar á eftir. Þetta er til mikilla bóta alveg eins og það var til mikilla bóta að færa upphafsdag Alþingis fram í septembermánuð eins og átti að vera núna en var breytt með bráðabirgðaákvæði til 1. október, að fjárlagafrumvarp komi fyrr fram og þingið til að fjárlaganefnd og Alþingi hafi þá lengri tíma til að vinna þessi frumvörp en áður hefur verið. Þetta er allt til mikilla bóta.

Eins og ég sagði hér áðan var athyglisvert að fylgjast með þessari umræðu, meðal annars ræðu hæstv. fjármálaráðherra þegar hann fylgdi frumvarpinu úr hlaði. Þá sat ég í forsetastóli og hlustaði með athygli á það sem þar kom fram. Fjármálaráðherra gerði mjög mikið úr lækkun um 0,8 prósentustig á milliskattþrepinu, eða úr 25,8% í 25%, þar sem 80% þeirra sem greiða tekjuskatt eru. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að tekjur ríkissjóðs vegna þessa drægjust saman um 5 milljarða kr. og þar af leiðandi mundu ráðstöfunartekjur heimilanna aukast um þá 5 milljarða og jafnvel eitthvað meira í öðrum þáttum sem hér var rætt um varðandi fjárlög og það.

Virðulegi forseti. Mér finnst það hins vegar ekki rétt fram sett vegna þess að í frumvarpinu, sem hæstv. fjármálaráðherra mun flytja eftir þessa umræðu, þ.e. í þriðja þingmálinu, koma ýmsar skattahækkanir og álöguhækkanir á almenning í landinu, sem meðal annars munu lenda á þeim 80% þeirra sem greiða tekjuskatt, þeirra sem eru í milliskattþrepinu. Í frumvarpinu, sem verður rætt hér á eftir, kemur það fram, í umsögn fjármálaskrifstofu hans eigin ráðuneytis, að það séu hækkanir upp á tæpa 3 milljarða kr. Ef 80% af því lenda á þeim sem eru að fá lækkun sjáum við að það er rangt að tala um að ráðstöfunartekjur heimilanna, þeirra sem fá þessa skattalækkun, muni aukast um 5 milljarða kr. Það er bara ekki rétt, vegna þess að þeir fá á sig hækkanir, sem eru boðaðar í næsta frumvarpi á eftir, sem þarna er talið vera tæpir 3 milljarðar kr.

Má ég þá nefna þar að auki ýmislegt sem er í fjárlagafrumvarpinu og þeim frumvörpum sem við ræðum hér í dag — ýmsar lækkanir gætu íþyngt ýmsum. Ég nefni sem dæmi 750 millj. kr. lækkun til vegagerðar. Ég nefni sem dæmi að fallið hefur verið frá fyrirhugaðri hækkun á markaðri hlutdeild Starfsendurhæfingarsjóðs í tryggingagjaldinu. Ég nefni sem dæmi hækkun á skrásetningargjöldum við opinbera háskóla sem á að gefa hvorki meira né minna en 213 millj. kr. Og þeir háskólastúdentar sem fá skattalækkun, ef þeir bera skatt, vegna milliskattþrepsins — ætli sú hækkun fari ekki algjörlega með þessum hækkunum á skrásetningargjöldum í opinbera háskóla?

Svona getum við lengi talið. Það er að vísu ekki mikil hækkun á sóknargjöldum, sem ég er alveg sammála, það er hálfgerð svívirða hvernig farið hefur verið með þjóðkirkjuna undanfarin ár. Hún hefur tekið á sig meiri lækkun en aðrar stofnanir undir því ráðuneyti á undanförnum árum. Þó svo að stigið hafi verið lítið skref á þessu fjárlagaári — eða um 40 milljónir sem aukið var við, að mig minnir, við 3. umr. frekar en 2. umr.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins leggja þetta hér inn. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessari umræðu, ég sit ekki í efnahags- og viðskiptanefnd og ekki í fjárlaganefnd, sem eru auðvitað aðalnefndirnar sem fjalla um þessi mál. Það er nauðsynlegt að það komi fram að ráðstöfunartekjur heimilanna, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði í flutningsræðu sinni hér áðan, eru ekki að aukast um 5 milljarða kr., vegna þess að það sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, eða stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili, gagnrýndu hvað harðast, það er það frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra mun mæla hér fyrir á eftir, hækkanir, vísitöluhækkanir og kannski umfram vísitöluhækkanir á ýmsum þáttum hér á eftir. Kílómetragjaldið, olíugjaldið, útvarpsgjaldið og þannig má lengi telja. Allt eru þetta hækkanir sem lenda á fólki og sjálfstæðismenn og framsóknarmenn gagnrýndu okkur hvað harðast fyrir það á síðasta kjörtímabili, þeir koma með nákvæmlega sama atriðið hér núna.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í það. Mér þætti vænt um að hann svaraði því hér á eftir í lokaræðu sinni um frumvarpið hvort það sé ekki rétt að ráðstöfunartekjurnar eru ekki að minnka hjá þessum — en ég tek fram að þeir sem fá skattalækkun eru 80% skattgreiðenda í landinu sem eru í milliþrepinu. Í næsta frumvarpi er boðað að þær hækkanir sem hann mun mæla þar fyrir munu hafa 0,2–0,3% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs og hækka skuldir landsmanna hvað það varðar. Hver verður skuldahækkun heimilanna vegna þeirrar vísitöluhækkunar sem hér kemur fram?

Eins og segir hér:

„Hækkun annarra gjalda sem frumvarpið tekur til hefur einhver bein áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna til lækkunar.“

Einhver bein áhrif? Þetta eru ekki nein einhver bein áhrif, þetta eru bein áhrif upp á 3 milljarða kr. Ef 80% af því lenda á þeim 80% skattgreiðenda sem eru í milliskattþrepi eru það 2,4 milljarðar sem þar koma inn á móti skattalækkuninni sem hér er sett fram.

Nú má enginn skilja mig þannig að ég sé á móti þeirri skattalækkun sem hér er sett fram. Ég hef hins vegar fyrirvara um hvernig það er útfært og hvort eitthvað af því ætti ekki að koma í lægsta flokkinn. Það má líka taka undir það sem hér hefur verið sagt um skattalækkanir og setja það á móti niðurskurði og fjárhagserfiðleikum í heilbrigðiskerfinu öllu, það má alveg velta því fyrir sér. En það er verkefni sem bíður nefndanna að vinna úr. Ég segi fyrir mitt leyti, hvað þessa skattalækkun varðar, hafandi setið í ríkisstjórn og verið í ríkisstjórnarmeirihluta síðustu fjögur ár sem þurfti mikið að hækka skatta og skera niður — það voru ekki nein ánægjuleg verkefni sem menn voru að samþykkja þá, síður en svo. En að taka við þrotabúi landsins í þeirri ríkisstjórn var meiri háttar mál.

Menn geta svo endalaust skipst á skoðunum um það hvernig til hafi tekist, hvort hækka hefði átt þessa skatta eða einhverja aðra eða skera eitthvað annað niður í staðinn fyrir það sem skorið var niður. Það voru ekki ánægjuleg tíðindi, það voru ekki ánægjuleg verkefni sem maður stóð í og þess vegna segi ég að mér finnst að sú skattalækkun sem hér er boðuð og kemur þarna á millistéttina, skulum við segja, sé bara hið besta mál, en hvet til þess að í nefndarvinnu verði skoðað hvort ekki eigi frekar að fara niður í neðsta flokkinn hjá okkar minnstu bræðrum og systrum, sem minnst hafa, vegna þess að þau munu heldur betur fá á sig hlutfallslega af þeirri 3 milljarða kr. hækkun á ýmsum sköttum og gjöldum sem fjármálaráðherra er að fara að mæla fyrir hér rétt á eftir.

Virðulegi forseti. Ég tel rangt að setja það þannig fram, eins og hér var gert, að þessi 0,8 prósentustiga tekjuskattslækkun gefi aukna 5 milljarða kr. í ráðstöfunartekjur vegna þess að það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur boðað hér með hægri hendinni — hann er að koma með vinstri höndina rétt á eftir og boða skattahækkanir, mjög margar, sem þeir gagnrýndu hvað mest. Það er enginn munur á vinnu þessarar ríkisstjórnar hvað þetta varðar eða þeirri síðustu eða þeirra sem sátu þar á undan.