143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[17:06]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa hér langa ræðu þótt tilefnið sé ærið. Ég gat því miður ekki verið við fjárlagaumræðuna í síðustu viku, var að sinna erindum á vegum Alþingis erlendis hjá Evrópuráðinu þar sem ég sat ársfjórðungslegt þing.

Við ræðum tekjuaðgerðir sem eru hluti af fjárlagapakka ríkisstjórnarinnar og við hljótum að skoða hann allan í heild sinni. Hvað þær tillögur sem hér liggja fyrir varðar hafa menn vakið máls á þeim áherslum sem þar birtast. Menn hafa spurt: Hvernig stendur á því að í stað þess að lækka skatta á millitekjuhópa um 5 milljarða kr. er ekki ráðist í skattalækkun — fyrst menn vildu fara inn á þá braut — hjá tekjulægsta fólkinu, fólki með undir 242 þús. kr. á mánuði?

Svarið liggur augljóst fyrir. Þetta er allt fullkomlega í samræmi við þær áherslur sem ríkisstjórnir þessara flokka hafa viðhaft frá því ég man eftir. Þetta eru sömu áherslur og birtust í fjárlagafrumvarpinu 1995, þetta eru sömu áherslur og birtust í fjárlagafrumvarpinu 1999, þetta eru sömu áherslur og birtust í fjárlagafrumvarpinu 2003. Það er fyrst 2007 sem áherslubreyting verður til batnaðar, en nú er aftur farið í bakkgírinn, þann gír sem Sjálfstæðisflokkurinn kann best að keyra eftir, aftur á bak, í áttina að meira misrétti. Þess vegna er ekki byrjað á því að létta undir með lágtekjufólkinu, þeim sem minnstar hafa tekjur.

Hvað er búið að gera og hvað er búið að boða á þeim fáu mánuðum sem ríkisstjórnin hefur setið? Það var byrjað á að lýsa því yfir að fallið yrði frá því að taka á móti tekjum í gegnum auðlindagjald af útgerðinni upp á 4–6 milljarða á ári. Þetta er gert fáeinum vikum áður en við förum að fá fréttir frá útgerðarfyrirtækjunum í landinu og þeim stærstu og öflugustu að þau eru að greiða út metarð. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum greiddi í sumar 1.100 milljónir til eigenda sinna og Samherji auglýsti methagnað. Þetta er að gerast á sama tíma og ríkisstjórnin afsalar þjóðinni, afsalar Landspítalanum, afsalar framhaldsskólanum, afsalar almannatryggingakerfinu 4–6 milljörðum kr. til þess að þeir geti runnið ofan í þessa vasa. Þetta var fyrsta verkið.

Síðan kom auðlegðarskatturinn sem árið 2012 gaf rúma 6 milljarða í ríkissjóð og menn ætla að mundi gefa núna 9,3 milljarða. Þarna var sem sagt forgangsröðin byrjuð að birtast. Nákvæmlega sömu áherslur og við þekktum í aðdraganda hrunsins þegar Sjálfstæðisflokkurinn stýrði skattáherslum ríkisstjórnarinnar á þann veg að skattar jukust á allra lægst launaða fólkið en var létt af þeim sem mestar tekjur höfðu. Við erum aftur komin inn í þennan farveg og það er dapurlegt hlutskipti að eiga hlutdeild að slíku ráðslagi.

Síðan erum við að uppgötva það núna sem við fengum að kynnast sérstaklega 1999 og svo aftur 2003 að samfara niðurskurðinum á að ráðast í kerfisbreytingar. [Kliður í þingsal.] Ætla menn eða trúir því einhver að ríkisstjórnin vilji …?

Gæti ég fengið hljóð í salnum? Ég mundi gjarnan vilja að fjármálaráðherra hlustaði á það sem ég er að segja.

(Forseti (SJS): Ekki samtal í salnum.)

Ég hef engar grunsemdir um að Sjálfstæðisflokkurinn vilji veikja samgöngukerfið í landinu, ég held að hann vilji efla það. Ég held að hann vilji líka efla heilbrigðiskerfið í landinu og menntakerfið. En hann ætlar að láta greiða fyrir það með öðrum hætti en nú hefur verið gert. Innanríkisráðherra boðar núna einkavæðingu í samgöngukerfinu, vill að einkaaðilar komi, ekki að rekstri, heldur eignarhaldi á höfnum, á vegum og á flugvöllum. Halda menn að það verði ekki einhverjir sem greiði fyrir þetta? Haldið þið að það þurfi ekki að reka þessa starfsemi? Ef ekki á að vera sameiginlegur sjóður sem gerir það þá eru það notendur.

Við erum að fá að kynnast þessu núna í heilbrigðiskerfinu þar sem það verða ekki þeir landsmenn sem eru aflögufærir og frískir og borga með sínum sköttum heldur hinir sem eru veikir. Að leyfa sér það, að leyfa sér að koma fram með tillögu um að rukka veikt fólk sem er lagt inn á sjúkrahús, það er ósiðlegt og menn eiga að skammast sín fyrir það.

Þetta eru þær áherslur sem við fengum að kynnast áður frá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum í þeim fjárlögum sem ég hef vísað til. Þess vegna er dapurlegt að verða vitni að því að aftur eigi að fara ofan í þetta gamla rangláta hjólfar. Það er það sem mér finnst verst við þessar ráðstafanir.

Hér var sagt í ræðu áðan að ríkisstjórnin væri að standa vörð um þá sem verst stæðu að vígi. Ég á eftir að koma auga á það. Hún er að drepa niður rannsóknarstarf og vísindastarf, nýsköpun og sprotastarf, einhverjar jákvæðustu ráðstafanir sem síðasta ríkisstjórn réðst í. Allt þetta á að þurrka út, allt sem er umhverfisvænt á að víkja líka. Það er bara eitt auga í miðju enni, það er gamla stóriðjan. Síðan er það misréttið sem við erum að verða vitni að núna; hygla stórútgerðinni, hygla stóreignamönnum, stóreignafólki — það eru áherslurnar sem við verðum vitni að í fjárlagafrumvarpinu.

Maður sem ég hitti á förnum vegi fyrir fáeinum dögum sagði við mig: Hvers vegna látum við þau ekki bara gera þetta, fáum að sjá afleiðingar af verkum þeirra? Að þeir sem kusu þessa flokka til að stjórna landinu fái að kynnast í reynd, fái að kynnast óskum þeirra í verkum þeirra. Hvers vegna að vera að streitast á móti?

Ég segi: Það er okkar hlutverk sem myndum félagshyggjustjórnmálaflokka og það er hlutverk verkalýðshreyfingar að reyna að standa vörð gegn þeim öflum sem eru ekki aðeins að seilast inn á þessar brautir núna heldur hafa gert um langan aldur. En ég hélt, hæstv. forseti, að menn hefðu eitthvað lært af því sem gerðist í aðdraganda hrunsins og að menn mundu í verkum sínum reyna að sýna örlítið meiri hógværð en þeir gera. Það er byrjað strax aftur að hygla hinum ríku og níðast á þeim sem veikast standa í samfélaginu.