143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014. Með frumvarpinu eru lagðar til margvíslegar breytingar á ýmsum lögum en allar eru þessar breytingar forsendur sem lagðar eru til grundvallar áætlun fjárlagafrumvarpsins, bæði á tekjuhlið og gjaldahlið.

Í fyrsta lagi eru lögð til almenn hækkun um 3% á hinum svokölluðu krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins með það að markmiði að fjárhæðirnar haldi raungildi sínu frá fyrra ári. Má þar nefna hækkun á olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, kolefnisgjaldi, raforkuskatti, bifreiðagjaldi og gjaldi af áfengi og tóbak. Auk þess er lögð til hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra. Áætlað er að þessar hækkanir skili ríkissjóði um 750 millj. kr. í tekjur.

Í öðru lagi eru lagðar til hækkanir á öðrum gjöldum, eins og skrásetningargjöldum í opinbera háskóla, sóknargjöldum og framlagi íslenska ríkisins til þjóðkirkjunnar. Skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2014 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar mun hækka um 62,8 millj. kr. Þá verður framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs óbreytt í krónum talið árið 2014 verði frumvarpið að lögum. Áætlaðar viðbótartekjur af hækkun skrásetningargjalda í opinbera háskóla eru metnar 213 millj. kr.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar sem eru liðir í aðhaldsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Á þetta við um breytingar á fjárhæðum greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en bæði hámarks- og lágmarksgreiðslur eru hækkaðar og fallið er frá lengingu fæðingarorlofs. Þessar breytingar eru taldar lækka útgjöld í þessum málaflokki um 150 millj. kr.

Í frumvarpinu eru einnig tillögur um lækkun skattfrádráttar til handa nýsköpunarfyrirtækjum sem taldar eru lækka útgjöld ríkissjóðs um allt að 300 millj. kr. á árinu 2015 og breytingar á lögum um Ríkisútvarpið, m.a. um þróun útvarpsgjaldsins til næstu ára. Breytingar á gjaldtöku Fjármálaeftirlitsins eru af svipuðum toga sem og brottfall greiðslna vegna fiskvinnslufólks sem nýtur kauptryggingar á grundvelli kjarasamninga þegar vinna liggur niðri vegna hráefnisskorts. Þá er í tengslum við aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar gert ráð fyrir að fyrirhugaðri hækkun á hlutdeild starfsendurhæfingarsjóða í tryggingagjaldinu úr 0,0325% í 0,0975%, á árinu 2014, verði frestað þannig að framlag ríkissjóðs á árinu 2014 miðist við óbreytta hlutdeild í tryggingagjaldinu og nemi 315 millj. kr. Að óbreyttu hefði 0,0975% hlutdeild af gjaldstofni tryggingagjaldsins leitt til 629 millj. kr. hækkunar á framlagi ríkissjóðs en með þessari breytingu er komið í veg fyrir að þau útgjöld falli til á árinu 2014.

Í fjórða lagi eru auk þess í frumvarpinu nokkrar tillögur af ólíkum toga sem fyrst og fremst ráðast af framkvæmdalegum sjónarmiðum og er þá átt við breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs að því er varðar gjald af útgáfu leyfisbréfa til leikskólakennara, grunnskólakennara og framhaldsskólakennara og tillögur er varða útreikning á kostnaðarþátttöku vistmanna í hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Einnig er lögð til breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum í þeim tilgangi að leggja niður óþarft fyrirkomulag verðmiðlunar- og verðtilfærslukerfis í landbúnaði og um leið gera verðlagninguna gegnsærri. Ætla má að með þessu verði skilyrði fyrir samkeppni einnig bætt og afurðastöðvum í mjólkuriðnaði betur gert kleift að takast á við samkeppni erlendis frá. Þá mun opinber stuðningur við landbúnað samkvæmt fjárlögum lækka samtals um tæpar 383 millj. kr.

Þá er lagt til að gjaldhlutfall vegna greiðslu kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlitsins og umboðsmanns skuldara verði lækkað en gjöldin taka mið af umfangi við rekstur stofnananna. Innheimtar tekjur af gjöldunum á árinu 2014 eru áætlaðar 600 millj. kr. til umboðsmanns skuldara og um það bil 1.600 millj. kr. til Fjármálaeftirlitsins.

Mun ég þá víkja að áhrifum tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt. Krónutölugjöld og nefskattar eru mikilvægur hluti af tekjuáætlun fjárlaga ár hvert en samtals nemur þessi tekjuflokkur um 10% af heildarskatttekjum ríkisins á árinu 2013. Þessir skattar hækka ekki sjálfvirkt í takt við verðlag, heldur þarf að breyta lögum eigi þeir að fá verðlagsuppfærslu.

Erfitt er að meta af nákvæmni hvaða áhrif framangreindar aðgerðir hafa á einstakar efnahagsstærðir eins og ráðstöfunartekjur heimilanna, verðlag eða kaupmátt ráðstöfunartekna sem aftur hafa áhrif á framvindu efnahagsmála og þar með tekjur ríkissjóðs, enda aðgerðirnar mjög margvíslegar. Þá eru áhrifin bæði bein og óbein og koma ekki einungis fram á árinu 2014 heldur einnig á næstu árum.

Áhrif hækkana á krónutölugjöldum, eins og eldsneytisgjöldum og gjöldum af áfengi og tóbaki, koma að óbreyttu fram í hærra verðlagi. Lauslegt mat bendir til að áhrifin gætu verið um 0,2–0,3% til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Hækkun annarra gjalda sem frumvarpið tekur til hefur einhver bein áhrif á ráðstöfunartekjur heimila til lækkunar. Áhrif þessara breytinga í heild gætu því mælst nálægt 0,3% til lækkunar á kaupmætti ráðstöfunartekna ef áhrifin koma að fullu fram.

Í þessu samhengi vísa ég til þess sem ég sagði undir lok fyrri umræðu, sem nú er rétt nýlokið, að þessi neikvæðu áhrif koma þess vegna til frádráttar af jákvæðum áhrifum af skattalækkunum og heilt yfir er út frá því gengið í fjárlagafrumvarpinu að kaupmáttur ráðstöfunartekna, þegar tekið hefur verið tillit til alls þessa, vaxi um 0,3% á næsta ári.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.