143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég óska ríkisstjórninni alls hins besta í því að ná að snúa hjólum atvinnulífsins dálítið hraðar. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að fríverslunarsamningur við Kína mun hjálpa mikið, m.a. til að stemma stigu við verðlækkun á sjávarafurðum. En það er samt skrýtið að þegar maður horfir á stöðuna þá er hún svona: Það eru allar fréttir góðar úr hafinu, makríll verður búhnykkur í vaxandi mæli á næstu árum og bætt verður við 50 þús. tonnum af þorski á næstu þremur árum. Ferðamennska hefur aldrei verið jafn styrk stoð og í dag. Samt er kvíði og óvissa, ekki bara meðal almennings heldur líka í atvinnulífinu.

Ég held að rekja megi það að töluverðu leyti til þess að skilaboðin frá ríkisstjórninni eru ekki um samstöðu. Það sem fólk finnur miklu frekar er núningur á millum stjórnarflokkanna, t.d. um þetta stóra mál sem annar flokkurinn telur að verði að leysa en hinn flokkurinn kallar vangaveltur. Meðan líður tíminn. Ég held því miður að það sem ég sá ákveðinn búhnykk í og skrifaði um fyrir kosningar varðandi uppgjör við þrotabúin — það er að líða hjá. Af hverju? Vegna aðgerðaleysis, vegna landamæradeilna, ég veit það ekki.

Tilefni mitt hingað var þó að koma með eina alls óskylda spurningu, um fæðingarorlofið. Hefur ríkisstjórnin einhver áform um að lengja fæðingarorlofið á kjörtímabilinu sem nú er hafið?