143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég rakti það í ræðu minni fyrr að ákveðin stefnumörkun fælist í því að einbeita sér að hækkuninni á mánaðarlegu greiðslunni. Við höfum tekið eftir því hversu mjög hefur dregið úr því að feður taki fæðingarorlof og er rakið aðeins í greinargerð með frumvarpinu. Af þeirri ástæðu var áherslan lögð núna á að hækka mánaðarlegu greiðsluna og við vonumst til þess að það skili sér í einhverju. Ég get alveg sagt það sem öllum er augljóst að þetta er engin gríðarleg hækkun, en þetta er skref í rétta átt.

Til næstu ára litið finnst mér að við hljótum að stefna að því að endurheimta þann rétt sem við áður höfðum tryggt fólkinu í landinu, þ.e. níu mánuðina, en ég segi það hreint út að mér finnst við ekki búa við þær aðstæður í dag að geta lofað tólf mánaða fæðingarorlofi. Mér finnst menn hafa farið fram úr sér þar og ég vísa til þeirra talna sem ég rakti í ræðu minni áðan.

Við vorum áður með Fæðingarorlofssjóð sem tók til sín um 13 milljarða, fór niður í 7. Áform fyrrverandi ríkisstjórnar hefðu falið í sér 16 milljarða frá árinu 2015 eða 2016, og svo mundi frekari hækkun á mánaðarlegu greiðslunni bætast þar ofan á. Við Íslendingar erum bara einfaldlega ekki í þeirri aðstöðu til að fara í 16–20 milljarða fæðingarorlofsgreiðslur í dag, því miður.