143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[19:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir frumvarpið. Þetta er mikið framfaraskref. Mig langar til að koma inn á viss tæknileg atriði eins og til dæmis það hvenær gildistaka frumvarpsins er. Það er ljóst að ef það á að taka gildi um áramót stöðvast allar lántökur. Menn munu fresta öllum lántökum þar til gjaldið lækkar og það yrði mjög hamlandi fyrir markaðinn. Hins vegar kann að vera að menn flýti öllum eignaskiptum til að losna við hækkun gjaldsins. Það er því dálítið varasamt að hafa þetta svona langt fram í tímann og spurning hvort hv. nefnd þurfi ekki að skoða það að láta gildistökuna vera eitthvað fyrr.

Ég geri ráð fyrir því að samkeppni milli banka muni aukast mikið, þetta muni velta upp spurningu um lántökugjöldin sem lítið hefur verið rætt um. Menn líta nánast á það sem náttúrulögmál þegar þeir taka lán að það eigi að borga einhvern heljarinnar pening fyrir lántökuna. Ég hugsa að ekki löngu eftir að lögin hafa tekið gildi muni lántökugjaldið verða mikið til umræðu og jafnvel verða lækkað hjá einhverjum út af samkeppninni.

Varðandi Íbúðalánasjóð er heimild til að leggja á uppgreiðslugjald hjá Íbúðalánasjóði og ég tel einsýnt að það þurfi að beita því þegar lántakan verður svona lipur. Nú, ég held að það sé ekki fleira og ég held að þetta frumvarp verði mjög gott — nema nafnið. Ég er mjög óhress með þetta nafn því að stimplun þýðir að verið er að stimpla eitthvert skjal. Einu sinni voru til stimpilvélar þar sem menn sneru þessu endalaust og var ógurleg vinna. Nú er þetta allt orðið rafrænt. Ég vil endilega að hv. nefnd taki sér leyfi til að finna eitthvert annað nafn á þetta en stimpilgjald. Fyrir utan að þetta er ekki gjald, þetta er skattur. Ég skora á hv. nefnd að skoða það.