143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[19:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um þetta erum við hv. þingmaður algjörlega sammála. Það á að vera viðurhlutaminna að fella skatta niður en að kynna til sögunnar nýja eða hækkun á þeim sem fyrir eru.

Ég vil koma einu að undir lokin, af því að ég hef heyrt af því í umræðunni að menn skilji það svo að verið sé að hygla einhverjum varðandi hlutabréf á kostnað þeirra sem eiga t.d. í fyrstu fasteignaviðskiptum. Um það er að segja að gjaldið hækkar nokkuð hressilega á lögaðila upp í 1,6% en það eru lögaðilarnir sem hefðu borið gjaldskylduna af hlutabréfunum. Stimpilgjald átti að greiðast vegna útgefinna hlutabréfa og stofnbréfa en eftir að hlutabréf voru í auknum mæli gefin út rafrænt þá reyndist innheimtan á þessu eitthvað flóknari. Þegar saman er tekið er ég nokkuð viss um að með þessu hærra stimpilgjaldi muni lögaðilarnir þegar upp er staðið ekki fá mikla lækkun með þessum breytingum.