143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[19:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er áliðið dags og ég sé að farið er að draga af hæstv. fjármálaráðherra. Efalítið á hann eftir að hlaupa 18 km skokkhringinn sinn þannig að ég ætla ekki að tefja hann um of. Mig langar hins vegar að leggja mitt af mörkum til þess að skýra fyrir honum hans eigin orð eins og hefur stundum verið hlutskipti mitt hér á þessum degi.

Hæstv. ráðherra var spurður einfaldrar spurningar í dag af hv. þm. Helga Hjörvar. Hv. þm. Helgi Hjörvar spurði hann: Var það ekki kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins að afnema stimpilgjöld? Því svaraði hæstv. fjármálaráðherra aldrei. Þess vegna ætla ég að rifja upp fyrir honum hans eigin kosningastefnu en í stefnu Sjálfstæðisflokksins kemur algjörlega skýrt fram að hann vilji afnema stimpilgjöld. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stimpilgjöld afnumin – með því er staða lántaka styrkt og samkeppni á lánamarkaði aukin.“

Það er með öðrum orðum gersamlega í gadda slegið hvað Sjálfstæðisflokkurinn vill.

En hvar er nú djörfung og dugur hv. þingmanna Framsóknarflokksins? Þeir sitja hér þrír í salnum og hlusta á hæstv. ráðherra en það er eins og þeir heyri ekki orð hans. Tóku hv. þingmenn virkilega ekki eftir því þegar hæstv. ráðherra sagði hér seinni part umræðunnar að út af fyrir sig væri ljóst hver hefði verið stefna Sjálfstæðisflokksins en síðan sagði hann að við myndun ríkisstjórnarinnar hefðu orðið til aðrar áherslur. (Gripið fram í.) Hvað liggur í þessu? Það getur ekki verið annað en að hæstv. fjármálaráðherra sé að segja það alveg eins og hann sagði varðandi lækkun virðisaukaskatts á barnafötum fyrr í dag, að þá hafi líka komið aðrar áherslur — það er erfitt að draga aðra ályktun af þessu en þá eina að það hafi verið Framsóknarflokkurinn sem kom í veg fyrir þetta. Það er það sem liggur í orðum hæstv. fjármálaráðherra. Þegar ég spurði hann um barnafötin í dag þá sagði hann meira að segja að það væri af og frá en kom með efnislega sömu setningu og þessa: Við myndun ríkisstjórnarinnar varð samstaða um tiltekna niðurstöðu. Hvað ber að lesa úr því?

Þá hefur það gerst á þessum degi að hæstv. fjármálaráðherra hefur á einum eftirmiðdegi tekist að svíkja þrjú kosningaloforð, þ.e. í fyrsta lagi yfirlýsingu sína úr þessum ræðustól 6. júní um að til skoðunar væri að leggja fram í sumar frumvarp til að lækka virðisaukaskatt á barnafötum. Í öðru lagi sagði hann á sama degi í júní að hann hygðist líka beita sér fyrir því að lækka olíugjald. Og hvað er hann að gera hér í dag? Hann er að hækka það. Síðan er það þetta: Hann leggur fram frumvarp sem felur í sér að miðað við stefnu Sjálfstæðisflokksins þá eru þau hjón sem eru tekin sem sérstakt dæmi í greinargerð með frumvarpinu svikin um nákvæmlega 200 þús. kr. Stefna Sjálfstæðisflokksins var skýr: Afnema stimpilgjöld. En það kemur í ljós, af þessu dæmi sem er notað, að þá vantar 200 þús. kr. upp á það.

Hitt liggur svo ósvarað í þessari umræðu, sem hv. þm. Helgi Hjörvar benti á hér áðan, að samkvæmt þessu frumvarpi verður þetta þyngra og erfiðara fyrir ungt fólk sem er að kaupa íbúð í fyrsta skipti, álögurnar á það hækka. Þannig skildi ég líka þetta frumvarp alveg eins og hv. þm. Helgi Hjörvar og hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki borið það til baka.

Herra forseti. Þetta er nú skrýtið ferðalag. Slá sér upp á því í kosningum að það eigi að hjálpa fólki, koma síðan með afurð sem gerir því erfiðara fyrir, að minnsta kosti því fólki sem við töldum að við vildum helst hjálpa, og eftir liggur að það er allt saman Framsóknarflokknum að kenna. Ekki er hægt að skilja orð hæstv. fjármálaráðherra öðruvísi.