143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[19:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur verið ágæt og vonandi upplýsandi um megináherslubreytingarnar sem felast í þessu nýja frumvarpi, heildarendurskoðun á lögum um stimpilgjöld.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom hér og gerði mér þann greiða að rifja upp áherslur okkar í kosningabardaganum frá því í vor þar sem við töluðum um að bæta stöðu lántakenda og auka samkeppni á lánamarkaði fyrir fasteignakaupendur, en það markmið næst einmitt með þessari breytingu, með því að stimpilgjöldin eru alfarið felld niður af lánsskjölunum. Það var aðalatriðið. En um sumt eru áhrifin af frumvarpinu ekki jákvæð. Ég taldi mig nú hafa farið yfir það nokkuð ítarlega í framsöguræðu minni að í sumum tilvikum leiðir breytingin til þess að fólk greiðir hærra gjald í tengslum við fasteignaviðskipti. En það mikilvæga atriði sem snýr að möguleikanum til þess að endurfjármagna lán og það markmið að auka samkeppni á lánamarkaðnum næst fram með þessari breytingu.

Mér fannst eiginlega bara gaman að því að hv. þingmanni skyldi takast öðru eða í þriðja sinn að snúa orðum mínum upp í það að það væri allt Framsókn að kenna að ekki væri gengið lengra að þessu sinni. Nei, það er nú ekki svo heldur felur þetta mál, ásamt öðrum frumvörpum sem ég hef verið að mæla fyrir í dag, í sér ákveðna forgangsröðun og ég ætla að taka ábyrgð á henni alveg óstuddur. Menn þurfa ekkert að velta fyrir sér hvort það hafi verið einhver átök á milli flokkanna um þessa forgangsröðun vegna þess að þau voru einfaldlega ekki í aðdraganda þess að frumvarpið var lagt fram og hafa ekkert verið. Það hefur verið góð samstaða um að forgangsraða í þágu þeirra sem sækja framfærslu sína að einhverju leyti til bótakerfisins. Það birtist í stórauknum útgjöldum almannatrygginga á næsta ári borið saman við þetta fjárlagaár.

Það var líka samstaða um að lækka tekjuskattinn til þeirra sem greiða tekjuskatt í milliþrepinu. Það eru um 80% þeirra sem hafa launatekjur sem greiða þann skatt og njóta góðs af því. Við vorum jafnframt sammála um að hefja lækkun tryggingagjaldsins. Það er sannarlega ekki mjög stórt skref en ég tel að það sé mikilvægt innlegg í það að hefja hér raunhæfar kjarabætur fyrir launþegana í landinu á þessum vetri og á árunum fram undan. Lægra tryggingagjald skapar svigrúm bæði til fjárfestinga og launahækkana. Um önnur atriði hefur bara verið góð samstaða milli flokkanna þannig að það er engin ástæða til þess að fara út í þá sálma að einhver ágreiningur sé á milli flokkanna sem leiði til þess að málið kemur svona fram. Eins og ég rakti í framsöguræðu minni og sjá má ágætlega á málinu sjálfu þá er það afurð frá nefnd sem skipuð hafði verið áður en kosið var í vor. Reyndar var henni komið á laggirnar nokkrum dögum áður en kosið var í vor. Í öllum meginatriðum er verið að fylgja ráðgjöf nefndarinnar og ég tel að mjög fróðlegar og gagnlegar upplýsingar sé að finna í skýrslu nefndarinnar sem ég hvet menn sem eru áhugasamir um þetta efni til að kynna sér, til dæmis hvernig gjaldtökunni er háttað annars staðar og hverju gjaldið hefur skilað á einstaka gjaldstofna og þar fram eftir götunum.

Gjaldið hækkar miklu meira á lögaðila en á einstaklinga í tilfelli kaupsamninga og afsala eins og sjá má á töflu í frumvarpinu. Svo er létt af stimpilgjaldi sem nemur um 2,5 milljörðum vegna skuldabréfa og stór hluti þess er vegna viðskipta einstaklinga. Í heildina munu breytingarnar þannig koma sér betur fyrir einstaklinga og fjölskyldur en lögaðilana.

En það er eins og alltaf þegar gerðar eru kerfisbreytingar eins og sú sem hér er gerð að það eru kostir og gallar við útfærsluna. Og þar sem við höfðum einsett okkur að frumvarpið ætti að verða nokkuð hlutlaust hvað varðar tekjuöflun fyrir ríkissjóð þá eru ekki allar breytingar í frumvarpinu þess eðlis að þær létti af þessu gjaldi heldur þvert á móti hækkar það í ákveðnum tilvikum. Það eru þó mikilvægustu tilvikin sem ég hef hér rakið sem verka í rétta átt. Ég þakka fyrir málefnalega umræðu.