143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[19:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast við þessum athugasemdum hv. þingmanns. Reyndar kem ég inn á það sem aðrir hafa nefnt hér. Í frumvarpinu eru rakin dæmi, á bls. 10 eins og frumvarpið hér í þinginu er prentað má sjá dæmi sem draga það skýrt fram að í tilfelli þeirra sem eru að kaupa fasteign í fyrsta skipti og viðkomandi tekur lán sem þinglýsa þarf vegna þeirra viðskipta þá lækkar viðskiptakostnaðurinn sem tengist stimpilgjaldinu verulega. Hér er tekið dæmi um fjölskyldu sem fjárfestir í eigin húsnæði, hún fjármagnar kaupin með eigin fé og 65% lántöku af kaupverði. Sé kaupverð eignarinnar 35 milljónir og lánsfjárhæðin 23 milljónir greiðir viðkomandi fjölskylda 140 þús. kr. í stimpilgjald af kaupsamningi og 345 þúsund í stimpilgjald af skuldabréfinu, samtals 485 þúsund miðað við gildandi reglur — 485 þúsund. Verði frumvarpið að lögum mun umrædd fjölskylda greiða 280 þús. kr. í stimpilgjald og viðskiptakostnaður hennar mun því lækka um 205 þúsund eða um 0,6% af kaupverði fasteignarinnar. Hefði viðkomandi fjölskylda ekki þurft að fjármagna kaupin með lánum hækkar viðskiptakostnaður hennar um 140 þús. kr. við breytinguna. Þetta er dæmi um það hvernig þetta lækkar en hins vegar, eins og komið hefur fram í umræðunni, hafa kaupendur að fyrstu íbúð verið undanþegnir stimpilgjaldi af lánsskjölunum. Í því tilfelli greiða þeir hærra gjald vegna afsalsins. Á móti kemur að til framtíðar eiga þeir íbúðarkaupendur möguleika á endurfjármögnun án stimpilgjalda.